Vídjó

Deadly Prey (Banvæn bráð) frá 1987 er ein af þessum óeftirminnilegu hasarmyndum sem haugar voru til af á vídjóleigunum á níunda og tíunda áratugnum, oftar en ekki í spjaldarekkanum, ekki í almennilegu spóluhylki uppi á hillu. Myndir sem aldrei voru endurútgefnar á DVD-diskum og þurfa að dúsa til eilífðarnóns í heimi myndbandsins.

 

Sögupersónur Deadly Prey eru hálfnaktir karlar sem eiga stórar byssur og öskra mikið. Mike Danton er fyrrverandi hermaður. „Hann var hin fullkomna drápsvél í Nam“ en nú vilja fyrrum yfirmennirnir í hernum hann feigan.

 

Hogan ofursti er æðsti vondi karlinn, fyrrum herforingi sem nú ræður yfir hópi málaliða sem stunda mannrán og morð á götum Los Angeles.