Þeir sem áttu það til að sækja sér afþreyingu úr hundraðkallarekkanum á myndbandaleigum bæjarins, einhvern tímann fyrir aldamót, hafa vafalaust rambað á bíómynd með manninum með kjálkann ógurlega, Robert Z‘Dar.

 

Ungur Robert Z'dar.

Ungur Robert Z’Dar.

Svo sterkir eru andlitsdrættir Z’Dar að þeir sem hafa einu sinni séð honum bregða fyrir, gleyma því aldrei. Sterkbyggður líkaminn, ríflega 188 sentímetrar á hæð, og stórgert andlit sem hefur gengið í gegnum róttækari umbreytingu en þekkist meðal alfa-karldýra af órangútanætt, hefur gert Robert Z’Dar eftirsóttan vondan karl í ódýrum hasarmyndum Hollywood.

 

Robert Z‘Dar er af litháískum ættum, fæddur árið 1950 í Chicago í Illinois-fylki í Bandaríkjunum, en hans upprunalega eftirnafn er Zdarsky. Áður en hann lét draum sinn rætast um að gerast leikari í Hollywood reyndi hann meðal annars fyrir sér sem lögreglumaður, tónlistarmaður í rokkhljómsveit og dansari í Chippendales-flokknum svo eitthvað sé nefnt.

 

cherub

Sjerubismi (e. Cherubism) er sjaldgæfur erfðasjúkdómur sem veldur útbungun í neðri hluta andlitsins.

Eftir því sem best er vitað er það ekki svo að herra Z’Dar hafi orðið lýtalækningum að bráð, eins og svo margir kollegar hans í glysborginni, heldur þjáist hann af sjerubisma (e. Cherubism), sjaldgæfum erfðasjúkdómi sem veldur útbungun í neðri hluta andlitsins. Þetta erfðafræðilega óhapp hefur þó reynst blessun í lífi Roberts Z’Dar enda er það vafalaust ekki síst ógleymanlegu útliti hans að þakka, fremur en hæfileikum á leiklistarsviðinu, að hann hefur vel á annað hundrað kvikmyndahlutverk á ferilskránni.

 

Eins og með svo margt sem stingur í stúf hefur myndast eins konar sértrúarsöfnuður dyggra aðdáenda í kringum Z’Dar. Þrátt fyrir það hefur honum ekki enn tekist að skapa sér nafn á stóra sviðinu. Eflaust hefur kómískt útlit hans og gæði leikhæfileikanna haft eitthvað um það að segja. Það er nú samt þannig með sumt sem rennur í skolplögnunum neðanjarðar að endrum og eins flæðir það upp á yfirborðið og fær að njóta dagsbirtunnar um stund.

 

tango

Robert Z‘Dar í hlutverki „Face“ í Tango & Cash (1989).

Svipaða sögu má segja um herra Z’Dar en óhætt er að fullyrða að ein af hans stærstu stundum til þessa hafi komið árið 1989 í hlutverki óþverrans „Face“ í kvikmyndinni Tango & Cash, sem skartaði ekki ómerkari hetjum en Sylvester Stallone og Kurt Russell í aðalhlutverkum.

 

Zdar

Hér sést Z’Dar í hlutverki geðsjúklingsins Matt Cordell í Maniac Cop (1988).

Hlutverkið fékk Z’Dar þökk sé kröftugri frammistöðu árið áður sem brjálaði lögreglumaðurinn Matt Cordell í kvikmyndinni Maniac Cop, en Lemúrinn hefur áður fjallað um þá ógleymanlegu hryllingsmynd. Það hlutverk festi hann í sessi sem ofurstjörnu í heimi jaðarkvikmyndanna og fljótlega í kjölfarið komu að minnsta kosti tvær aðrar framhaldsmyndir sem nutu þó ekki eins mikilla vinsælda og fyrirrennarinn.

 

Árið 1991 skolaði honum svo aftur upp á yfirborðið en þá lék hann hlutverk í myndinni Mobsters, með þeim Christian Slater, Patrick Dempsey og F. Murray Abraham í helstu hlutverkum. Robert Z‘Dar er enn iðinn við kolann á leiklistarsviðinu og er von á fjölmörgum tilkostnaðarlitlum kvikmyndum með honum í aukahlutverki í framtíðinni.

 

Hér að neðan má sjá eftirminnileg leiktilþrif úr kvikmyndinni Final Sanction frá árinu 1990, en hún fjallar um uppgjör kjarnorkustríðs milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna, en stórveldin ákveða að senda sína bestu hermenn til að útkljá málin í eitt skipti fyrir öll.

 

Vídjó

 

Hér er stikla úr jaðarmyndaklassíkinni Samurai Cop frá árinu 1991, með Robert Z‘Dar í stóru hlutverki sem illmennið Yamashita:

 

Vídjó

 

Þess má geta að von er á framhaldi myndarinnar á næsta ári, Samurai Cop 2, með fjölmörgum úr upprunalega leikaraliðinu, en verkefnið var fjármagnað í gegnum hópfjármögnunarsíðuna Kickstarter.

 

Hér má sjá nýlega mynd af Robert Z’Dar:

 

Nýleg mynd af Robert Z'dar

Nýleg mynd af Robert Z’dar