Árið 1992 sendi bandaríski leikstjórinn Robert Altman frá sér myndina The Player. Þetta var sérstök mynd, með fjölmörgum leikurum og persónum og fjallar um lífið í Hollywood, veröldina baktjaldamegin.

 

Stórleikarar á borð við Tim Robbins og Whoopi Goldberg leika í myndinni. Þessi mynd vakti töluverða athygli hér norður á klakanum því í henni var íslensk persóna, June Gudmundsdottir, sem Greta Scacchi lék. Spólið á 27. mínútu til að sjá spaugilega senu þar sem Tim Robbins reynir að bera nafnið fram:

 

 

Árið 1992 var The Player sýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í Frakklandi. Þorfinnur Ómarsson blaðamaður skrifaði um hátíðina í Morgunblaðinu. Og ræddi sérstaklega um The Player og íslensku persónuna:

 

Í hvert skipti sem hún kemur fram í myndinni eiga aðrir í erfiðleikum með að segja nafnið hennar, sérstaklega Whoopi Goldberg, og margir aðrir Íslendingabrandarar eru látnir fjúka. Þess er getið að Ísland sé grænt en Grænland hvítt og minnst er á ýmis einkenni Íslands eins og goshveri og eldfjöll.

 

Á blaðamannafundi eftir frumsýninguna voru Altman og félagar spurðir spjörum úr varðandi Hollywood, en eftir nokkra umhugsun sá ég að ég varð að fá að vita hvaðan hugmyndin um Ísland hefði komið.

 

Ég stend upp, fæ hljóðnema í hönd og hef upp raust mína. „Ég heiti Omarsson og kem frá Íslandi…“

 

Lengra komst ég ekki, því troðfullur salurinn sprakk úr hlátri. Brandari ársins.

 

Altman, Goldberg, Robbins og fleiri sátu fyrir svörum voru lengi að jafna sig eftir þetta hláturskast og sjálfur gat ég ekki annað en skellihlegið að þessari vitleysu. Þegar ég fæ málið á ný segist ég hafa verið mjög hrifinn af íslendingahúmornum, en vilji endilega vita hvaðan hann sé sprottinn. Michael Tolkin, höfundur handritsins og bókarinnar, sem það er byggt á, svarar: „Okkur vantaði bara eitthvað nógu fáránlegt og fjarlægt öllu því sem er í myndinni. Altman kom strax með ýmsar hugmyndir um Ísland, en ég skildi ekkert í þeim. Ég skil þær ekki enn.“ „Það er ekkert að marka. Hann skilur ekki myndrænar hugmyndir,“ bætir Altman við.

 

Þorfinnur, Altman og Robbins. Allir hlógu dátt þegar talið barst að Íslandi.

Þorfinnur, Altman og Robbins. Allir hlógu dátt þegar talið barst að Íslandi.

 

Þorfinnur skrifar að margir hafi minnst á June blessunina Gudmundsdottur eftir þetta á hátíðinni. Hann hitti leikarann Christopher Lee, sem er til dæmis frægur  fyrir hlutverk í Hringadróttinssögu:

 

Skömmu seinna stöndum við upp og leggjum af stað, en þá mæti ég Lee í anddyri hótelsins. Hann kemur auga á mig og þekkir mig samstundis frá því ég hafði við hann viðtal fyrir Morgunblaðið í Madrid fyrir tveimur árum. Við spjöllum saman um stund, en hann stenst ekki mátið.

 

„Hefur þú séð The Player?“

 

„Já,“ segi ég.

 

„June Gudmundsdottir! Fannst þér það ekki fyndið,“ segir hann og hlær hátt.

 

Christopher Lee er nú enginn venjulegur maður. Efast um að nokkur í þessum bransa viti meira um land okkar og þjóð.

 

512px-Christopher_Lee_at_the_Berlin_International_Film_Festival_2013

Christopher Lee, leikari og þungarokkari.