Þessi „skrímslafrétt“ birtist í Morgunblaðinu í janúar árið 1960 :

 

BORDEAUX, Frakklandi 9. jan. (Reuter). – Ókennilegt blágrátt „sjóskrímsli“ rak á land á Ferat höfða í Biskayaflóa. Er skrímslið 13 fet, eða rúmlega fjórir metrar á lengd og 10 fet, eða rúmlega þrír metrar á breidd og vegur það fleiri tonn. Líkist það mest sæfíl.

 

Skrímslið hefur gríðarstór eyru sem ganga út úr flötu höfðinu, fætur með sundfitum, sem eru 6 1/2 fet eða um tveir metrar á lengd, og vex þykkt svart hár á þrýstnum hliðum þess.

 

Sæfíll er selur, sem lifir aðallega í Suður-Íshafinu. Aðaleinkenni sæfílsins er nef hans, sem er mjög stórt og myndarrani, en af honum dregur selurinn nafn sitt. Mun sæfíllinn vera skildur blöðruselnum.

 

Tvær tegundir eru til. Norðlægari tegundin, sem lifir í Suður-Kyrrahafi á svæðinu milli Juan Fernandez eyju allt norður til suðurodda Kaliforníuskaga í Mexíkó. Suðlægari tegundin, sem er stærri, (karldýrin geta orðið 7 metra löng), heldur sig sunnar, aðallega við Falklandseyjar út af suðurodda Ameríku, eða við Macquary eyjar, sem eru suður af Nýja Sjálandi og á íshellunni við Suðurskautsslandið. Myndin synir sæfíl í dýragarði Hagenbecks í Hamborg.