Kim Jong-il, fyrrum leiðtogi Norður-Kóreu, var mikill kvikmyndaáhugamaður. Árið 1978 leist honum illa á kvikmyndalífið í landinum og fór því að stunda mannrán á suðurkóresku kvikmyndagerðarfólki til að pína það til að gera fyrir sig bíómyndir. Lesið nánar um það hér.

 

Við hverfum nú aftur til miðalda í Kóreu. Í kringum árið 1000 var þar lénsveldi og konungar af Goryeoættinni stjórnuðu landinu með harðri hendi. Þessi tími var sögusvið skrímslamyndar sem kom út árið 1985 í Alþýðulýðveldinu Norður-Kóreu. Myndin hét Pulgasari. Leikstjóri hennar var Suður-Kóreumaðurinn Shin Sang-​​ok, en stjórnvöld handsömuðu hann í Hong Kong og fluttu nauðugan til Norður-Kóreu.

 

Hér getum við séð þessa mynd í fullri lengd. Hún er furðu skemmtileg og vel gerð:

 

Vídjó

 

Kóngurinn drottnar yfir þegnum sínum og pínir almúgann sem býr við sult og óhamingju. Gamall járnsmiður er sendur í fangelsi þó hann sé saklaus með öllu. Hann býr til litla dúkku úr hrísgrjónum á meðan hann situr í steininum.

 

Járnsmiðurinn hafði starfað í áratugi við að smíða leikföng fyrir ríka bændur. Dúkkan er hálfgert skrímsli, minnir á litla eðlu. Síðasta ósk gamla mannsins áður en hann deyr er að dúkkan bjargi fátæklingunum úr hinni miklu ánauð og þrældómi.

 

En það er galdur í þessari hrísgrjónadúkku.

 

Þegar dóttir járnsmiðsins stoppar upp í göt á slitnum bændalörfum stingur hún sig á títuprjón. Blóðdropar leka ofan á eðluna og við það lifnar hún við. Hún byrjar strax að háma í sig títuprjóna og nálar. Greinilega málmæta.

 

Og furðuskepna þessi vex úr grasi á ógnarmiklum hraða með því að háma í sig járn. Litla sæta veran breytist í gríðarlega stórt skrímsli sem minnir mikið á godzillu í japönskum kvikmyndum.

 

Lýður landsins hefur fengið sig fullsaddan á yfirgangi vonda konungsins gerir uppreisn. Kóngur telur sig geta valtað yfir vesalingana með her sínum. En þá birtist skrímslið, málmétandi eðlan, og hjálpar almúganum í bardögum við hin illu yfirvöld.

 

Þessi mynd, Pulgasari, er auðvitað á margan hátt myndlíking um kommúnismann, samtakamátt lýðsins gegn vondum yfirvöldum, auðvaldsdrottnurum.

 

Bíómyndir eru mikilvægt áróðurstól fyrir þá sem vilja beita slíku. Og í Norður-Kóreu er líklega mesta áróðursmaskína veraldar. Kommúnistastjórnin sem þar situr, nú með Kim Jong-un í fararbroddi, er eitt einangraðasta og furðulegasta land í heiminum. Það eru margar þverstæður í Norður-Kóreu.

 

Góða skrímslið Pulgasari barðist við vondan og spilltan einræðiskóng til að frelsa lýðinn. En maður getur ekki betur séð en að leiðtogar Norður-Kóreu séu alveg jafn slæmir og sá vondi kóngur í fyrrnefndri bíómynd og borgarar landsins búi við gífurlegt harðræði.

 

Og raunar er endirinn á þessari mynd Pulgasari furðulegur. Þegar kóngurinn er dauður eftir að hafa kramist undir súlu í konungshöll sinni þegar skrímslið réðst þar inn er ófreskjan góða hyllt sem þjóðhetja.

 

En eftir uppreisnina snýst hún hins vegar gegn þjóðinni. Verður eigingjörn og fer að éta verkfæri og aðra verðmæta járnhluti. Þjóðin lendir aftur í hungursneyð. Nokkuð óvænt lýsing á ástandinu í Norður-Kóreu eins og það hefur þróast. En myndin endar samt vel.

 

Þegar dóttir gamla járnsmiðsins grátbiður skrímslið, sem liggur pakksatt á meltunni, að fara í megrun sér það að sér. Skrímslið breytist í stein og hrynur til grunna.