Vídjó

 

„Í kolli mínum geymi ég gullið 

sem gríp ég höndum tveim

svo fæ ég vexti og vaxtavexti

og vexti líka af þeim“

 

Svo söng fuglinn Trölli um bankaviðskipti fyrir börnin, árið 1973. Trölli var sparibaukur Útvegsbankans. Lagið Tröllasöngur var upphaflega samið fyrir sjónvarpsauglýsingu bankans. Lagið var síðan gefið út á plötunni Trölli syngur ásamt öðru lagi sem er því miður ekki að finna á internetinu.

 

Guðbergur Auðunsson syngur fyrir Trölla og samdi lagið, en um undirleik sáu Magnús Eiríksson gítarleikari og Björn Björnsson trommuleikari.

 

Dr. Gunni útnefndi Trölli syngur eina af „skrítnustu plötum Íslandssögunnar“ í Pressunni árið 1994. Doktorinn fullyrti að plötuútgáfan af Tröllasöngnum væri „lakari en sjónvarpsauglýsingaútgáfan“ og stakk jafnframt upp á að arftaki Útvegsbankans, Íslandsbanki, léti framleiða nýja útgáfu í takt við tíðarandann árið 1994: „Trölli reifar“.

 

Útvegsbankinn auglýsti fæðingu Trölla í Æskunni í maí 1970. Þar er tilgreint að hann sé finnskur að uppruna og ætli, með hjálp bankans, að safna sér fyrir Hondu. Í síðara tölublaði Æskunnar stakk Trölli svo upp á við börnin að þau slepptu því að reykja, og leggðu í sparibaukinn andvirði eins sígarettupakka á dag — þannig gætu þau safnað sér fyrir umræddri Hondu á einungis tveimur árum.

 

Auglýsing um Trölla í Æskunni, 10. tbl. 1970.