Þjóðarsorg ríkir í Norður-Kóreu sökum fráfalls leiðtogans Kim Jong Il. Öll höfum við séð myndir af syrgjendum á götum úti, hágrátandi og æpandi af sorg og örvæntingu. En það eru ekki aðeins mannlegir íbúar Norður-Kóreu sem syrgja leiðtogann. Ríkisfréttastofa landsins flutti þessa frétt fyrir örfáum dögum:

 

„Pyongyang, 7. janúar (KCNA) — Um klukkan 12:00 þann 23. desember 2011 sáu verkamenn úr námu í Taehung þrjá birni á veginum, þegar þeir voru á leið heim frá sorgarstaðnum þar sem þeir höfðu tjáð sína dýpstu samúð eftir fráfall leiðtogans Kim Jong Il.

 

Birnirnir, líklega móðir og tveir húnar, stóðu kyrrir á veginum og grétu örvæntingarfullt.

 

Birnir eyða venjulega vetrardögunum í djúpum svefni í hellum eða undir trjám í skógarþykkninu. Svo að það er óvenjulegt að þeir hafi komið út á veginn að degi til. Þar að auki var þetta vegur sem leiðtoginn hafði farið á ferð sinni um svæðið.

 

Vitnin sögðu að það hafi verið sem dýrin væru grátandi vegna dauða hans.“

 

 — Korea Central News Agency

 

Ríkisfréttastofan hefur áður sagt frá því að skjórar hafi sést hringsóla í kringum styttu af Kim Il Sung í borginni Mangyongdae og gargað hátt, skömmu eftir að tilkynnt var um andlát Kim Jong Il. Fréttastofan taldi það líklegast að skjórarnir hafi verið að segja styttunni hinar miklu sorgarfréttir.