Nýleg bylgja bandarískrar popptónlistar um rassa hefur vakið nokkra athygli og jafnvel hneykslan. Sumir segja að þetta umfjöllunarefni sé ósmekkleg nýjung, merki um dekadens vorra daga; ég vil hinsvegar flækja dálítið málin og sýna að hömlulaus rassaaðdáun er ekkert nýtt. Hana má til dæmis sjá út um allt í Grikklandi til forna.

 

Forn-gríska er, líkt og íslenska, tungumál sem býður upp á samsetningu orða og eru margar samsetningarnar mjög skrautlegar. Nokkur dæmi sem eru í uppáhaldi hjá mér eru sagnirnar piþekofageo, „að borða apa“, og apopsoleo, „að draga forhúðina til baka“. Tiltölulega nýlega varð til enskt orð sem nota má sem beina þýðingu fyrir annað frábært samsett orð í forn-grísku. Það er lýsingarorðið kallipygos, af kallos sem þýðir fegurð og pyge sem þýðir rasskinn: „með fallegar rasskinnar“, eða á ensku, bootylicious.

 

Og fallegar rasskinnar voru Grikkjum ofarlega í huga. Til er fræg stytta af Afródítu þar sem ástargyðjan lyftir kyrtlinum á erótískan hátt upp yfir rasskinnarnar, líklega að afklæðast fyrir bað. Styttan var þekkt sem Afrodite Kallipygos.

 

„Afródíta Kallipygos“, rómversk eftirmynd (1. öld f. Kr.) af horfinni grískri frummynd. Þjóðmynjasafnið í Napólí.

 

Til er lýsing úr safnbæklingi árið 1836 þar sem vakin er athygli á því að rasskinnar stytturnar væru orðnar dökkar af öllum þeim „óhreinu kossum“ sem ákafir safngestir hefðu smellt á þær í gegn um tíðina. Hinsvegar er eitt af því skemmtilega við Grikkland til forna að það var ekki bara kvenlíkaminn sem var hlutgerður á þennan hátt: Karlmannslíkaminn var talinn jafnvel enn meira kallipygos. Til dæmis má nefna þennan stórglæsilega Hermes:

 

„Hermes og barnungur Díónýsos“, 4. öld f. Kr., mögulega eftir Praxiteles. Í Fornminjasafninu í Ólympíu, Grikklandi.

 

Eitt glæsilegasta dæmið um rassaaðáun Grikkja er síðan þessi sofandi Hermafródítos. Samkvæmt goðsögunni var hann glæsilegur ungur drengur sem skógardís nauðgaði meðan hann var að baða sig, og runnu þau saman í eina, tvíkynja veru. Hinn gullfallegi Hermafródítos er enda bæði með brjóst og typpi:

 

Hermaphroditus dormiens

„Sofandi Hermafródítos“, rómversk eftirmynd frá 2. öld e. Kr. af grískri frummynd frá 2. öld f. Kr. Dýnan er seinni tíma viðbót. Louvre-safnið, París.

 

 

800px-BorgheseHermaphroditusLouvre-front

Sama stytta hinum megin frá.

 

Aðdáun mannkyns á rössum hefur kannski ekki verið stöðug í gegn um tíðina, en þó hafa ýmsir menningarvitar, innblásnir af hinni grísku fyrirmynd, haldið uppi merkjum hennar. Snemma á 20. öld skrifaði þýski fræðimaðurinn Paul Brandt (1875-1929) nokkrar brautryðjandi bækur um kynlíf og kynferði í Grikklandi til forna undir dulnefninu Hans Licht. Dulnefnið var nauðsyn, því Grikkland til forna var á háum stalli í Þýskalandi þess tíma, en á sama tíma var samkynhneigð fyrirlitin og bæld niður. Þar sem ekki er hægt að fjalla um kynlíf og kynferði  án þess að tala um samkynhneigð, sérstaklega ekki þegar umfjöllunarefnið er Grikklandi til forna, þá þurfti Brandt að hafa varann á.

 

Í einni bóka sinna tjáði Brandt sig um það hvernig kynlíf með konum væri raunar einskonar brandari eða farsi. Sköp konunnar væru ekki bara hulin hárum; undir þeim væru „leiktjöld“ hinna ytri skapabarma, og þar fyrir innan fyndust aðeins – önnur leiktöld (innri skapabarmarnir!) Brandt gerði stólpagrín að þessu furðuverki, en vakti í staðinn athygli á því sem fyrir aftan leyndist: Rassinum, fullkomnun mennskrar náttúru, hápunkti sköpunarverksins. Brandt kallaði rannsóknir sínar á fegurð rassins Glutäenerotik eða „rassaerótík“, og útskýrði:

 

Frá sjónarhóli fegurðarfræðinnar er ekki hægt að ímynda sér neitt fegurra eða fullkomnara en sköpulag rasskinna mannsins.

 

Nýjustu og djörfustu tónlistarmyndböndin eru því í raun nýr hlekkur í aldagamalli hefð. Þau hafa blásið lífi í glæður gamalla fræða og sett rassinn á sinn forna stall: Poppið er hin nýja Glutäenerotik.