Í ár fagna Þjóðverjar 30 ára afmæli hinnar friðsömu byltingar, þegar Berlínarmúrinn féll og fólk í Þýska alþýðulýðveldinu fékk loks að upplifa ferðafrelsi sem það hafði ekki áður þekkt. Ári síðar var Alþýðulýðveldið liðið undir lok sem langflestir íbúar þess fögnuðu mjög. Við þetta tilefni rifjaði þýska fótboltanördavefsíðan 11 Freunde upp nokkur merki austurþýskra fótboltaliða. Hönnun þeirra er einkar glæsileg. Hvert merki segir mikla sögu og lýsir félagslegum raunveruleika verkalýðsins sem studdi félögin af mikilli næmni og dýpt. Nöfn liðanna segja sömuleiðis til um hvaða starfsemi eða iðnaður var algengastur í hverri borg fyrir sig. BSG skammstöfunin stendur fyrir Betriebssportgemeinschaft, sem mætti lauslega þýða sem starfsgreina-eða fyrirtækjaíþróttafélög. Þannig tengdist atvinnustarfsemi hverrar borgar íþróttafélagi sínu órjúfanlegum böndum.

BSG Chemie Glas Ilmenau var íþróttafélag glerverksmiðjunnar VEB Werk für Technisches Glas í Ilmenau, höfuðborg glerframleiðslu í Austur-Þýskalandi.


Motor Weimar heitir í dag SC 1903 Weimar og spilar í Thüringendeildinni sem er 6. deild Þýska knattspyrnusambandsins. Motor segir til um að starfsemin sem hélt uppi liðinu var tengd véla-og/eða bílaframleiðslu.BSG Lautex Neugersdorf heitir í dag FC Oberlausitz Neugersdorf og leikur í Regionalliga Nordost, eða fjórðu efstu deild. Það er í raun ótrúlegt að 5000 manna smábær heldur úti atvinnumannaliði. Þekktasti leikmaður í sögu félagsins er líklega tékkneski landsliðsmaðurinn Jiri Stajner sem aðdáendur Þýsku markanna með Lárusi Guðmundssyni muna eftir úr Hannover 96.
Þetta tignarlega merki er Motor Germania Karl-Marx-Stadt segir til um öflugan vélaiðnað í Karl-Marx-Stadt, fæðingarborg Michael Ballack. Í dag heitir liðið TSV Germania Chemnitz.

TSG Bau Rostock, til vitnis um öflugan byggingariðnað í Rostock. Í dag er liðið í neðri deildunum undir nafninu Rostocker FC.
BSG Baumechanik Neubrandenburg. Þar var og er mikil framleiðsla verkfæra. Félagið heitir í dag 1. FC Neubrandenburg 04 og spilar í Verbandsliga í Mecklenburg-Vorpommern.

Þetta stórkostlega merki er lið kjarnorkuversins í Greifswald, BSG Kerkraftwerk Greifswald og sýnir atóm á fleygiferð. Kjarnorkuverinu var lokað árið 1990 og þar með leið félagið einnig undir lok.

FC Vorwärts Frankfurt spilaði í Frankfurt an der Oder við landamæri Póllands. Í dag heitir félagið 1. FC Frankfurt og leikur í Oberliga Nord.

BSG Aktivist Schwarze Pumpe er frá Hoyerswerda í Saxlandi. Félög með nafnið Aktivist tengdust námuvinnu og námuverkamönnum. Í dag heitir liðið Hoyerswerda FC.

BSG Stahl Silbitz sýnir hvernig járnið kólnar í vatninu en í smábænum Silbitz var mikill málmiðnaður. Þar er afar lítið að frétta í dag, íbúafjöldinn er um 600 manns en fótboltaliðið er enn til eftir nokkrar sameiningar við önnur félög. Í dag heitir það SV Elstertal-Silbitz-Crossen.


BSG Robotron Sömmerda var félag tölvufyrirtækisins Robotron sem var með framleiðslu í Sömmderda í Thüringen. Robotron framleiddi fullkomnustu tölvur Austur-Þýskalands og starfaði á árunum 1969 og allt uns múrinn féll. Þá kom í ljós að tölvur fyrir vestan tjald stóð Robotron-tölvunum talsvert framar og rekstrinum því sjálfhætt. Félagið er enn til, heitir í dag FSV Sömmerda og spilar í neðri deild í Thüringen.

Post Neubrandenburg hljómar ef til vill eins og listastefna en var félag póstsins í Neubrandenburg. Félagið sameinaðist á sínum tíma BSG Baumechanik og er því enn til undir nafninu 1. FC Neubrandenburg 04.


BSG Modedruck Gera var félag textíl-og fatalitunarverksmiðjunnar Modedruck í Gera sem er í dag yfirgefin draugabygging. Eftir fall múrsins hélt liðið áfram undir merkjum 1. FC Gera 03 og varð meðal annars Thüringenmeistari 2007 og 2011. Félagið varð hins vegar gjaldþrota árið 2012 og er ekki til lengur.