Viktoría Bretadrottning hélt samviskusamlega dagbók á næstum hverjum degi sinnar löngu ævi, frá því að hún var þrettán ára gömul prinsessa árið 1832 og allt þar til hún lést árið 1901, drottning yfir fjórðungi heimsins.
Hún skrifaði ekki aðeins atburði dagins í dagbækurnar heldur myndskreytti hún þær einnig ríkulega. Drottningin var ekki slæmur teiknari og bækurnar eru fullar af skemmtilegum teikningum af fjölskyldu hennar, erlendum gestum og kóngafólki, almennum borgurum sem urðu á vegi hennar, og auðvitað lemúrum.
Dagbækur Viktoríu hafa nýlega verið gerðar almenningi aðgengilegar í fyrsta sinn, í tilefni sextíu ára valdaafmælis langalangaömmubarns hennar á vefsíðunni Queenvictoriasjournals.org. Því miður getum við einungis skoðað síðuna tímabundið því lokað verður á gesti utan Bretlands í lok júlímánaðar.
En hérna er sýnishorn af teikningum Viktoríu.

Ítalska óperusöngkonan Giuditta Grisi sem Pamira í „L’Assedio di Corinto“ eftir Rossini. 4. júní 1836.

Elstu börn drottningarinnar — Viktoría, hin konunglega prinsessa og Albert Játvarður prins af Wales — í búningum sem bændur í Gotha, 24. maí 1844.