Skoski náttúruvísindamaðurinn Dougal Dixon skrifaði árið 1982 bókina After Man – A Zoology of the Future. Í bókinni veltir hann fyrir sér líffræði framtíðarinnar, lífinu eftir 50 milljón ár, þegar maðurinn verði horfinn af sjónarsviðinu.

 

Álfurnar hafa færst til í floti jarðflekanna. Nýjar lendur hafa skapast með nýjum náttúruskilyrðum sem nýjar dýrategundir aðlagast með þróun og náttúruvali. Dixon telur að áhrif mannsins á umhverfið muni leiða til algjörar útrýmingar hans – ferli sem hann telur að sé þegar hafið.

 

Eftir þau áföll mun mikil auðn blasa við eftirlifandi dýrategundum á jörðinni. Tegundirnar þurfa að fylla upp í tómarúmið. „Sú hvatning leiðir til sköpunar nýs dýraríkis. Í bókinni er úrlausnum þessara nýju dýra á lendum jarðar lýst.“

 

Í spá Dixons verða dýrategundir jarðar eftir 50 milljón ár nokkuð ólíkar þeim sem við þekkjum úr nútímanum okkar. En þær munu sinna svipuðum hlutverkum. Í stað sela og hvala, sem munu deyja út, koma til sögunnar ný stærðarinnar sjávardýr.

 

Afkomandi rottunnar mun í heimsmynd Dougals Dixon verða að einskonar sel.

 

Afkomandi mörgæsarinnar verður stærsta sjávardýrið í heiminum. Og mun éta svif með gogginum sem hefur þróast í sömu átt og skíði stórhvela nútímans.

 

Mörgæsir hafa tekið við kefl­inu af hvölum og hlunkast nú um heimshöfin.

Mörgæsir hafa tekið við kefl­inu af hvölum og hlunkast nú um heimshöfin.

 

Geirfuglinn mun koma aftur

Álka nútímans er, eins og margir vita, náskyld geirfuglinum sem dó út á nítjándu öld. Dixon spáir því að álkan verði orðin mjög svipuð hinum útdauða frænda sínum eftir 50 milljón ár og beri hið „mörgæsarlega“ útlit sem geirfuglinn gerði. Nýi geirfuglinn verður ófleygur sundfugl í norðurhöfum.

 

Nágranni nýja geirfuglsins á norðurhöfum verður sækekkurinn, hrufótt fjögurra metra langt sjávardýr sem komið er af rottum.

 

Annar heimsskautabúi verður svelgurinn – stærsta skepna jarðarinnar – sem syndir um Suður-Íshaf. Hann er afkomandi mörgæsarinnar – 12 metra langur – sem tekið hefur upp iðju hvalanna, sem eru útdauðir – og étur svif með skíðisgogginum.

 

Frændi hans verður mörpinninn, einnig kominn af mörgæsum, en hann er smærra sjávardýr sem étur fisk.

 

Antílópur taka völdin

Í stað fíla og nashyrninga, bjarna og annarra stórra landdýra hafa afkomendur antílópa tekið völdin. Það er spá Dixon að kettir og hundar deyi að mestu út – í stað þeirra koma ný rándýr sögunnar sem þróast hafa úr ættkvísl rottunnar, prímatans og fleiri dýra.

 

Lífsbarátta dýranna verður því í meginatriðum hin sama; hún mun snúast um endalausa baráttu dýranna sem í stöðugri þróun leita nýrra leiða til að nærast, fela sig, verja sig – vaxa og dafna – fjölga sér. En það er kannski fyrst og fremst hvarf mannsins, samkvæmt Dixon, sem gefur raunverulegt svigrúm til þess að mega þróast.

 

Sum dýr í spádómi Dixon virðast í fyrstu sýn harla furðuleg og mörgum finnst kannski að slík kvikindi eigi frekar heima í fantasíubókmenntum eða vísindaskáldskap en í raunverulegu líffríki heimsins. En hann hefur sagt að sköpunargáfa náttúrunnar skapi miklu ótrúlegri mynstur en nokkuð það sem manninum hefur dottið í hug. Lemúrinn tekur undir það!

 

Tarfkanína.

Tarfkanína.

Tarfkanínur verða „arftakar“ dádýra og antílópa, en eru komnar af kanínum. Þær geta lifað í næstum hvaða umhverfi sem er og bíta gras. Þær minna á hófdýr í útliti en þó verða nokkrar tegundir í umferð sem bera enn hið frumstæða einkenni kanína að hoppa til og frá á afturlöppunum.

 

Nightstalker

Næturhrellir.


Á eldfjallaeyjunni Batavíu á Kyrrahafinu hefur lífið þróast í einangrun. Af þessum sökum búa þar alls kyns furðuleg dýr sem þróast hafa frá leðurblökum. Þeirra ófrýnilegast er næturhrellirinn sem stendur á afturlöppunum og er einn og hálfs metra hár. Næturhrellarnir ferðast um í hópum og ráðast á skriðdýr og spendýr.

 

Loðrisaantílópa.

Loðrisaantílópa.

Risaantílópan mun fylla þann sess er fílar, gíraffar, elgir og aðrar stórar grasætur tilheyrðu áður. Þær eru afkomendur antílópa og skiptast í undirtegundir sem bera ólíkt svipmót. Ein undirtegundin er loðrisaantílópan en það er stærðarinnar skepna sem minnir á elg og ber gríðarstór horn sem vaxa fram. Skepnan notar hornin til að moka snjó frá gróðrinum í jarðveginum en hún lifir á norðurslóðum.

 

Risaantílópur.

Risaantílópur.

Af öðrum undirtegundum risaantílópunnar má nefna kransrisaantílópuna gríðarstóru sem mun búa á gróðursælum sléttum.

 

Bavíanar verða uppivöðslusamir í framtíðinni.

Ravíanar verða uppivöðslusamir í framtíðinni.

Ravíanarnir eru afkomendur bavíana. Þeir munu taka að sér hlutverk rándýrsins á sléttum Afríku eftir að kattardýrin dóu út. Þeir eru kjötætur og hafa þróað með sér tvífættan gang og get ætt áfram á miklum hraða á veiðum.

 

Dryglar eru langleitar hræætur sem munu bíða eftir því að ravíanarnir ljúki sér af með bráð sína og sleikja svo beinin.

 

 

Skurngöltur.

Skurngöltur.

Í lággróðrinum í skóginum munu búa smáar verur sem lifa á ánamöðkum og öðrum hryggleysingjum í jarðveginum. Þeirra á meðal er skurngölturinn, afkomandi broddgalta. Í stað broddanna hefur skurngölturinn þróað með sér liðskipta plötubrynju. Þegar óvinur nálgast getur dýrið snúið sér á hlið og myndað grjótharðan hnött úr brynjunni sem rándýrin geta ekki brotið.

 

Goggmús.

Goggmús.

Goggmúsin er komin af snjáldurmúsinni. Þróunin hefur látið henni í té langan gogg sem hún notar til að veiða ánamaðka í moldinni.

 

Sefstulta.

Sefstulta.

Sefstultan er spendýr sem mun lifa í votlendi og veiða fiska.

 

Eyðimerkurhákarlar.

Eyðimerkurhákarlinn mun búa á þurrustu svæðum jarðar. Hann er pylsulaga með sterkbyggt höfuð og skóflulaga fætur. Hann „syndir“ um eyðimörkina og brýtur sér leið inn í greni sandnagdýranna sem búa í nágrenni við hann. Eyðimerkurhákarlinn er hárlaus og lifir neðanjarðar á daginn til að flýja eldheita sólina.

 

Slefari og

Slefari og hírí-hírí.

Slefari er einskonar letipokadýr sem mun hanga í trjám í skógum Ástralíu. Slefarinn er staurblindur og eyðir nær allri ævinni hangandi á trjágrein þar sem hann veiðir skordýr með límkenndu slefinu.

 

Hírí-hírí er annað pokadýr sem mun bíða færis í trjánum og stökkva á bráð sína fyrirvaralaust.

 

 

Vakki
Á graslendum eyjaálfunnar Suður-Ameríku mun hinn tvífætti vakki hlaupa á miklum hraða. Hann er af ættflokki nagdýra.

 

Sundapi

Sundapinn er prímati sem mun búa í vötnum. Hann er ákaflega sundfimur og getur kafað í leit að fiskum. Hann hefur þróað með sér frosklegan líkama sem nýtist vel á sundinu. Hann á furðulega nágranna í vatninu á borð við vatnamauraætuna.

 

Rákur
Rákurinn er einn af örfáum afkomendum kattardýranna. Hann mun búa í trjám og hefur tileinkað sér mjóslegna og fiman líkamsburð apanna sem nýtast ráknum vel til að sveifla sér á milli trjágreina.