Eins lengi og ljósmyndatæknin hefur verið til hafa menn átt við og breytt ljósmyndum á ýmsan hátt. Lemúrinn birti á dögunum greinina Fyrir tíma Photoshop: Stórfelld endurskrifun sögunnar í valdatíð Stalíns þar sem sýnt er hvernig sovésk yfirvöld létu breyta ljósmyndum til þess að þurrka út persónur sem fallið höfðu í ónáð. En auðvitað má líka eiga við ljósmyndir í sakleysislegri tilgangi.

 

Í Bretlandi Viktoríutímans voru til að mynda ljósmyndarar sem gerðu sérstaklega út á að taka svokölluð hausleysis-portrett, portrettmyndir þar sem látið var líta út fyrir að fyrirsætan væri höfuðlaus og oftar en ekki með afskorið höfuðið í fanginu. Þetta var hægt með því að taka tvær myndir af fyrirsætunni og líma þær svo saman á þennan hátt, og þótti dæmalaust skemmtilegt.