Leonid Rogozov herlæknir í leiðangri Sovétmanna á Suðurskautslandinu vissi að babb væri komið í bátinn hinn 29. apríl árið 1961. Hann fann fyrir slæmum verkjum hægra megin í kviðnum og var kominn með hita. Rogozov þreifaði á maganum á sér. Þetta gat ekki þýtt nema eitt: Hann var kominn með botnlangabólgu.

 

Hann var eini læknirinn í Novolazarevskaya-stöðinni, um hávetur á Suðurskautslandinu. Það var engin leið til að kalla á flugvél eða annan lækni. Næsta rannsóknarstöð var í um 1.500 kílómetra fjarlægð. Eina leiðin til að bjarga manni með botnlangabólgu var að skera hann upp sem fyrst. Rogozov neyddist því til að hefja botnlangaskurð á sjálfum sér.

 

Tveir félagar Rogozovs aðstoðuðu hann við aðgerðina. Annar var bílstjóri en hinn veðurfræðingur svo þeir höfðu enga reynslu af skurðaðgerðum. Þeir komu fyrir skurðstofu samkvæmt fyrirmælum læknisins. Rogozov kom sér fyrir og lá hálfbeygður á vinstri hlið líkamans og notaðist við lítinn spegil á maganum á sér.

 

 

Dr. Rogozov deyfði sig með sprautu. Hann skar svo 12 sentímetra langan skurð við hægri mjaðmarblaðið með skurðhnífnum. Með því að horfa með speglinum eða þreifa með fingrunum fann hann stökkbólginn botnlangann, fjarlægði hann og sprautaði sýklalyfjum í kviðarholið.

 

Aðgerðin gekk hratt fyrir sig fyrsta hálftímann en eftir það þurfti læknirinn að hvíla sig um stund áður en hann hélt áfram. Botnlangaskurðinum var lokið eftir klukkustund og þrjú kortér. Aðgerðin hafði heppnast vel. Rogozov hvíldi sig vel á eftir og var hinn hressasti að nokkrum dögum liðnum. Hann hóf störf aftur að tveimur vikum loknum.

 

Rogozov heillaði sovésku þjóðina með hetjudáð sinni. Hann hlaut eina æðstu orðu Sovétríkjanna við heimkomuna frá Suðurskautslandinu árið 1961. Hann lést árið 2000.

 

Allt er gott sem endar vel. Rogozov við heimkomuna.

 

Rogozov og vinur hans heilsa upp á mörgæs.

Rússneska rannsóknarstöðin Novolazarevskaya. Mynd frá 2006.