Árið 2001 var gerð skammlíf hliðarþáttaröð út frá X-Files þáttunum sívinsælu sem bar nafnið The Lone Gunmen. Þættirnir fjölluðu um þrjá nördalega gaura úr upprunalegu þáttunum, sem halda úti samsæriskenningatímariti og hafa í gegnum tíðina aðstoðað Fox Mulder við að leysa ráðgátur.

 

Nafn þríeykisins vísar til kenningarinnar um að ein skytta (e. lone gunman) hafi myrt John F. Kennedy. Þeir búa í heimi þar sem gangverk heimsins virðist meira og minna smíðað að tjaldabaki. Allt er í raun samsæri vondra kalla í jakkafötum í heimsmynd þáttanna.

 

Í fyrsta þættinum, sem sýndur var 4. mars árið 2001, sviptu hetjurnar hulunni af skelfilegri ráðagerð háttsettra manna í Bandaríkjastjórn.

 

Hún fól í sér að nota fjarstýringu til þess að fljúga Boeing 727-farþegaflugvél, á leið til Boston, á Tvíburaturnana og kenna hryðjuverkamönnum um, allt til þess að réttlæta hærri peningaframlög til varnarmála.

 

Vídjó

 

Skemmst er frá því að segja að rúmu hálfu ári síðar höfðu flestar sjónvarpsstöðvar bannað endursýningar á þættinum. Margar samsæriskenningar um hryðjuverkin 11. september snúast einmitt um að yfirvöld hafi verið að verki og því hefur þessi þáttur, þó hann hafi verið gerður áður en atburðirnir gerðust, þótt ríma óþægilega við þær kenningar. Skrýtið mál.

 

Munum að fæst framtíðarefni í sjónvarpi og kvikmyndum hefur mikið forspárgildi. Árið 2001 var ekki komin til sögunnar jafn háþróuð geimferðatækni eins og félagarnir Stanley Kubrick og Arthur C. Clarke sáu fyrir sér í myndinni 2001: A Space Odyssey.

 

Við gerð 2001.

Við gerð 2001.

 

Í myndunum um tortímandann Terminator á dómsdagur að verða 29. ágúst 1997 þegar 3 milljarðar manna farast í kjarnorkustríði eftir að kerfi sjálfvirkra véla hefur tekið völdin í heiminum.

 

nL8NBIb

Árið 1997 samkvæmt Terminator.

 

Hvað gerist á næstu árum samkvæmt spádómum kvikmyndanna? Kvikmyndin um vélbætta lögreglumanninn RoboCop á að gerast árið 2015 og sama ár er sögusvið myndarinnar Back To The Future 2, en þeir sem sáu myndina muna að fljúgandi hjólabretti verða komin til sögunnar það ár. Stutt í það!

 

Og hin magnaða framtíðarmynd Blade Runner á að gerast á því herrans árið 2019. Ridley Scott gerði hana eftir bókinni Do Androids Dream of Electric Sheep? eftir  Philip K. Dick.

 

Síðustu áratugina hefur læknavísindunum fleygt svo fram, að vísindamenn hafa ekki aðeins lært að skipta um líffæri í mönnum að vild, heldur einnig tekist að búa til gervimenn sem líkjast í öllu venjulegum mönnum nema hvað þeir geta aðeins lifað í fáein ár.

 

Heimurinn eftir örfá ár.

Heimurinn eftir örfá ár. Blade Runner gerist árið 2019.

 

Gervimennirnir eru vinnudýr í stöðvum jarðarbúa á öðrum plánetum. Þeim er bannað að koma til jarðarinnar. En sumir þeirra hafa engu að síður komist til Los Angeles. Stjórnvöld eru með sérstaka menn á sínum snærum til að elta þá flóttamenn uppi og eyða þeim fyrir borgun.

 

Vonum að þessi herfilega staða verði ekki komin upp eftir örfá ár!

 

Danski eðlisfræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Niels Bohr hafði á réttu að standa þegar hann sagði: „Það er mjög erfitt að spá fyrir um eitthvað, sérstaklega framtíðina“. Nema ef til vill fyrir slysni líkt og nördarnir Richard „Ringo“ Langly, Melvin Frohike og John Fitzgerald Byers í The Lone Gunmen. Eða var það ekkert slys?

 

Grilljarðamæringurinn og fjölmiðlakóngurinn Rupert Murdoch er eigandi fjölmiðlafyrirtækisins FOX sem framleiddi þættina. Margir hafa bendlað Murdoch við valdabrölt á bakvið tjöldin.

 

Vissi hann kannski af skelfilegu leynibruggi um 11. september? En gat hann þá ekki bara sagt frá því í stað þess að láta hliðarsjónvarpsseríu af X-Files fjalla um málið? Og af hverju gerðist þetta í þætti um Simpsons-fjölskylduna árið 1997 frá sömu sjónvarpsstöð?

 

31340

Spádómur?

 

Og í bókinni Debt of Honor frá 1994, enn einni spennusögunni um spæjarann Jack Ryan, eftir bandaríska hernaðarrithöfundinn heitna Tom Clancy, er breiðþotu flogið á þinghúsið í Washington. Hvað segir það okkur?

 

DebtOfHonor

 

 

Kannski er sannleikurinn sá að gríðarlega mikið efni er framleitt í heimi sjónvarps og kvikmynda og annarra listgreina og því ekki skrýtið að raunveruleikinn og skáldskapurinn rími einstaka sinnum á furðulegan hátt.

 

Eða er kannski allt „remix“, eilíf hringrás hugmynda í heiminum þar sem sömu hlutir birtast okkur aftur og aftur?

 

Og af hverju skrifar The Dude, höfuðpersóna The Big Lebowski, kvikmyndar Coen-bræðra, ávísun 11. september?

 

vlcsnap412111dk5