Vídjó

Á sunnudagskvöldi í október árið 1938 urðu milljónir bandarískra útvarpshlustenda skelfingu lostnir þegar fluttar voru fréttir af innrás Marsbúa til jarðar, nánar tiltekið í New Jersey-ríki. Sumir flúðu heimili sín í dauðans ofboði, fleygðu einhverju lauslegu í ferðatöskur og brunuðu burt út í bláinn á bílum sínum.

 

En í raun var þetta snilldarlegt útvarpsleikrit sem kornungur maður leikstýrði, en hann átti síðar eftir að láta mikið að sér kveða í heimi kvikmyndanna. Hann hét Orson Welles og leikritið var byggt á sögunni Innrásin frá Mars eftir H.G. Wells. Frumleg framsetning Welles kom aftan að hlustendum en hann setti hluta leikritsins upp sem fréttaflutning og náði þannig að plata fólk upp úr skónum. Hlustið á leikritið hér fyrir ofan.

 

Hryllilegar lýsingar af Marsbúum voru útvarpaðar: „Dömur mínar og herrar, þetta er það hræðilegasta sem ég hef nokkru sinni séð… Bíðið aðeins! Hér skríður einhver. Einhver… eða eitthvað. Ég sé tvo ljósa hringi í þessari svörtu holu… eru þetta augu? Þetta gæti verið andlit. Það gæti verið… guð minn almáttugur, það hreyfist eitthvað í skugganum eins og grár snákur. Hér er annar, og annar og einn í viðbót. Þetta eru eins og griparmar. Þarna sé ég búkinn á þessari veru. Hann er jafn stór og bjarndýr og það skín á hann eins og á blautt leður. En þetta andlit, það… dömur mínar og herrar, það er ólýsanlegt. Ég get varla horft á það, það er svo skelfilegt. Augun eru svört og píra eins og hjá skriðdýri. Munnurinn er V-laga og slef lekur úr vörunum sem virðast nötra og skjálfa.“

 

Orson Welles var kornungur leikari og leikstjóri sem skaust upp á stjörnuhimininn með snilldarlegu útvarpsleikriti.

Orson Welles var kornungur leikari og leikstjóri sem skaust upp á stjörnuhimininn með snilldarlegu útvarpsleikriti.

 

Fréttir af þessu útvarpsleikriti ferðuðust um allan heim. Morgunblaðið sagði frá því á þriðjudeginum á eftir:

 

„Óteljandi amerískir útvarpshlustendur urðu gripnir óstjórnlegum ótta í fyrrakvöld og helt fólk að „Marsbúar“ hefðu ráðist á ýmsar borgir í Bandaríkjunum og væru að tortíma þeim með hinum ógurlegustu drápstækjum. Ástæðan fyrir þessari hræðslu fólksins var upplestur úr skáldsögu enska skáldsins H.G. Wells, „The war of the worlds“, en sú saga er ímynduð árás Marsbúa á íbúa jarðar.

 

Upplestrinum var útvarpað frá stöðvum Columbia útvarpsfjelagsins og hafði verið skift um borgarnöfn í þannig að öll nöfnin voru eftir nöfnum á amerískum borgum.

 

Ótrúlegur fjöldi hlustenda helt að verið væri að lesa upp sannar frjettir í útvarpið.

 

T.d. flúðu hundruð New York-búa út úr íbúðum sínum með handklæði vafin um höfuð sjer, sem vörn gegn gaseitrun.

 

Margir heldu því fram, að þeir hefðu sjeð Marsbúa í hinum fáránlegustu herklæðum vopnaða dauðageislabyssum.

 

Hundruð fjölskyldna flúði undan hinum ímynduðu Marsbúum úti í skóga og jafnvel upp til fjalla.

 

Víða í Suðurríkjum Bandaríkjanna heldu menn að heimsendir stæði fyrir dyrum.“

 

Árið 1975 var sýnd fróðleg sjónvarpsmynd, The Night That Panicked America, um flutning þessa frægasta útvarpsleikrits allra tíma. Horfið á hana í fullri lengd hér:

Vídjó

 

Orson Welles við upptökur á leikritinu:"We know now that in the early years of the twentieth century this world was being watched closely by intelligences greater than man's and yet as mortal as his own..."

Orson Welles við upptökur á leikritinu: „We know now that in the early years of the twentieth century this world was being watched closely by intelligences greater than man’s and yet as mortal as his own…“

 

Penninn P.S. velti leikritinu fyrir sér á síðum Morgunblaðsins í nóvember 1938.

Penninn P.S. velti leikritinu fyrir sér á síðum Morgunblaðsins í nóvember 1938.

Fylgist með okkur á Facebook: