Látinn er kvikmyndaleikstjórinn Ken Russell, 84 ára að aldri. Þetta sérlundaða vandræðabarn breska kvikmyndaheimsins var aldrei allra – og seint verður sagt að Russell hafi verið yndi gagnrýnenda eða annarra sjálfskipaðra handhafa smekkvísinnar. Það er þó ekki að undra þegar haft er í huga að í einni alræmdustu mynd hans The Devils (1971) er Kristsstytta misnotuð í brjálæðislegri orgíu kynsveltra nunna.

 

Harkalega útreið gagnrýnenda á myndum Russell virkaði oftar en ekki sem hin besta auglýsingaherferð, enda er ávallt stór og dyggur markaður fyrir hinu furðulega og hneykslanlega. Ekki er annað að sjá en að Russell hafi sjálfur ýtt undir ímyndina sem honum hafði hlotist sem l’enfant terrible, en honum gramdist það þó engu að síður að verk hans og stíll væru sífellt smættuð í þýðingarlaust smekkleysi.

 

Þegar Alexander Walker, kvikmyndagagnrýnandi The Evening Standard, kallaði The Devils hryllilega ósiðsamlega í sjónvarpsviðtali snöggreiddist Russell og sló til hans með upprúlluðu eintaki af dagblaðinu sem Walker vann fyrir.

 

Women in Love (1969). Oliver Reed og Alan Bates á sprellanum.

Á löngum ferli voru viðfangsefni mynda Russell æði fjölbreytt, en ávallt litrík – myndin Women in Love (1969) var byggð á samnefndri skáldsögu D.H. Lawrence og innihélt hið víðfræga hómóerótíska atriði þar sem Oliver Reed og Alan Bates glímdu kviknaktir við arineld. Fyrir myndina hlaut Russell sína fyrstu og einu Óskarsverðlaunatilnefningu.

 

Til annarra helstu mynda Russell má nefna rokkóperuna Tommy (1975) og hina hugvíkkandi Altered States (1980).

 

Russell lætur eftir sig eiginkonuna Elise Tribble, sem hann kynntist eftir að hann auglýsti á heimasíðu sinni: „fjárhagslega ótraustur leikstjóri Ken Russell óskar eftir sálufélaga. Verður að hafa áhuga á tónlist, kvikmyndum og Moet og Chandon kampavíni“.

 

Meðfylgjandi er treiler fyrir hina subbulegu en heillandi The Devils, sem segir frá sannsögulegum atburðum sem áttu sér stað í Loudun, Frakklandi á 17. öld.

 

Sturluð og kynferðislega brengluð abbadís (Vanessa Redgrave) ásakar kvensaman prest (Oliver Reed) um að hafa gert samning við skrattann um að táldraga allar nunnurnar í klaustrinu hennar. Loðvík 13 og Richelieu kardináli nota ásökunina sem átyllu fyrir því að losa sig við prestinn, sem er pólitískur andstæðingur þeirra…

 

Vídjó