Þetta er mögnuð saga. Spennið beltin! [Gítarsóló] 

 

Árið er 1965. Við erum stödd í Birmingham á Englandi. Gefum okkur að það sé rigningarsuddi og fremur grámyglulegt um að litast. Hinn 17 ára Tony Iommi er mættur til vinnu sinnar í stálverksmiðjunni þar sem hann vinnur við að rafsjóða saman pressaðar stálplötur.

 

Tony þessi þykir nokkuð efnilegur gítarleikari og hefur verið að gæla við þá hugmynd að hætta í verksmiðjunni og snúa sér alfarið að tónlistarsköpun með hljómsveit sinni Rockin’ Chevrolets. Draumurinn virtist innan seilingar því þeir drengir höfðu fengið tilboð um að spila í Þýskalandi.

 

Tony ákveður því að segja upp í vinnunni. Í dag er síðasti dagurinn hans í verksmiðjunni. Konan sem sér um að pressa plöturnar sem Tony sýður saman er veik svo að hann er settur á pressuna líka. Í hádegismatnum íhugar hann að kalla þetta gott og mæta ekki eftir mat en mamma hans tekur það ekki í mál og rekur hann aftur í vinnuna.

 

Tony hafði aldrei áður stjórnað pressunni en það gekk samt furðuvel, þar til rétt fyrir lok dagsins. Þá teygir Tony sig aðeins of langt og fær margra tonna pressuna af fullu afli á fingurna. Langatöng og baugfingur á hægri hendi kubbast í sundur. Það er blóð útum allt og beinin standa ber út úr puttunum. Tony finnur ekki til enda í sjokki, en fljótlega hellist blákaldur raunveruleikinn yfir hann. Hann mun aldrei spila aftur á gítar.

 

Næstu daga og vikur liggur Tony í þunglyndi yfir eigin örlögum. Hann var grátlega nálægt því að gerast tónlistarmaður að atvinnu en nú bíður hans ekkert annað en verksmiðjulífið.

 

Vinur hans er þó ekki á sama máli. Hann heimsækir Tony og segir honum að líta á björtu hliðarnar. Í farteskinu hefur hann plötu með gítarsnillingnum Django Reinhardt. Tony kannast ekki við Django og segir vini sínum að það síðasta sem hann vilji akkúrat núna sé að hlusta á tónlist. Vinurinn gefur sig þó ekki og á endaum hlustar Tony á plötuna og líkar vel.

 

Þegar vinurinn bendir honum svo á að Django hafi einnig misst tvo fingur af annarri hendi fyllist Tony eldmóði og er staðráðinn í að spila aftur á gítar, hvað sem það kosti.

 

iommi-old-big

Tony vildi verða gítarhetja, en öll sund virtust lokuð.

 

Eftir að hafa lagt höfuðið í bleyti og reynt ýmislegt datt Tony niður á lausn. Hann bræddi plasttappa og mótaði þá svo aftur þannig að þeir virkuðu eins og framlengingarnar á fingurna tvo sem höfðu skaðast. Sjáum Tony sjálfan segja frá slysinu og sýna okkar tappasafnið sitt:

 

Vídjó

 

Tony gat nú spilað á ný og árið 1968 stofnaði hann hljómsveitina Black Sabbath ásamt Ozzy Osbourne, Bill Ward og Geezer Butler. Saman mynduðu þeir áhrifamestu þungarokkshljómsveit sögunnar, en Sabbath hafa stundum verið kallaðir Bítlar þungarokksins.

 

Fingurnir voru þó enn að stríða Tony en hann átti enn í vandræðum með að ná nógu góðu taki á strengjunum og að stjórna þeim almennilega, en þá gerðust galdrarnir. Tony skipti um strengi í gítarnum sínum, setti mýkri strengi í hann sem voru ætlaðir í banjó og til að fullkomna sköpunarverk sitt þá tjúnnaði hann gítarinn niður. Hið drungalega og þunga sánd Black Sabbath varð fullkomnað og þungarokkið varð til.

 

Vídjó

 

Eftir á að hyggja hefði sennilega verið einfaldast fyrir Tony að læra einfaldlega að spila rétthent, hann hefur sjálfur sagt í viðtölum að hann sjái eiginlega eftir því í dag. Hann reyndi það en sá fyrir sér að það myndi taka hann nokkur ár og 17 ára ungur maður á uppleið hefur ekki tíma í slíkt. Sennilega getum við verið þakklát fyrir óþolinmæðina hjá hinum unga Tony því saga og hljómur þungarokksins hefði eflaust þróast allt öðruvísi en Tony hefði ekki aðlagað gítarinn að fingrum sínum.