Kokkar eru ótrúlegir. Nú hefur Jamie Oliver, hinn heimsfrægi breski sjónvarpskokkur, sýnt sannkallaða ofurhetjutilburði – eða bara rambað á fjársjóð fyrir slysni.

 

Vefútgáfa New Musical Express greindi frá því í dag að Oliver hafi fundið svokallaðar masterupptökur (master tapes) frá hljómsveitinni Joy Division, sem og afleiðu hennar New Order. Oliver er um þessar mundir að opna nýjan veitingastað í Manchester, í byggingu sem eitt sinn hýsti banka. Upptökurnar fundust í kjallara byggingarinnar, en einnig fundust dýrmætir skartgripir og byssur. Talið er að heildarverðmæti þessa fjársjóðs nemi um 1,1 milljónum punda, sem samsvarar um 215 milljónum króna.

 

Gárungar tala nú þegar um, að það hafi væntanlega verið Martin heitinn Hannett, upptökustjóri Joy Division, sem hafi komið þessum gersemum fyrir í téðum kjallara. Sé tekið tillit til þeirra muna sem fundust ásamt upptökunum er sú kenning ekki fjarri lagi.

 

Mahlzeit fagnar þessari slembilukku Jamie Olivers! Hér má svo heyra aðeins í snilld Joy Divison… og Martin Hannets.

 

Vídjó