Íslendingar hafa löngum lagt áherslu á að skapa sér jákvæða ímynd erlendis, þar sem lögð hefur verið áhersla á náttúrufegurð og menningu. Þar er matarmenning ekki undanskilin, og er matar-hátíðin Food and Fun gott dæmi um það.
Þessi jákvæða ímyndarsköpun var þó víðs fjarri þegar Ísland fékk þann heiður að vera áfangastaður bandaríska matreiðslumeistarans, rithöfundarins og þáttastjórnandans Anthony Bourdain.
Bourdain þessi stýrir ferðaþættinum No Reservations, sem er einn vinsælasti ferðaþáttur í heimi um þessar mundir. Þátturinn gengur í stuttu máli út á það að Bourdain heimsækir tiltekið land, landsvæði eða borg. Þar gæðir hann sér á lystisemdum heimamanna í mat og drykk – og kafar þar með dýpra í menningarvitund gestgjafanna.
Óhætt er að segja að ferð Bourdain til Íslands hafi verið algert klúður frá upphafi til enda. Sú ímynd sem birtist til að mynda í myndbandinu Inspired by Iceland er í öllu falli víðs fjarri, hipp og kúl breikdansarar voru ekki á hverju horni.
Kom Bourdain til landsins í janúar, í kolniðamyrkri og stingandi kulda. Þorrinn var hafinn og var kæstum hákarli og öðru ómeti troðið ofan í kappann án afláts. Hann fékk einnig smjörþefinn af íslenskri menningu á einstaklega pínlegan hátt, svo ekki sé meira sagt, þar sem hann fékk að kynnast vöðvakörlum í World Class – sem skoruðu að sjálfsögðu á hann í sjómann. Lyftingarkarlarnir létu það heldur ekki eftir sér að fræða Bourdain um sögu þjóðarinnar, víkinga og karlmennsku þeirra þegar þeir rændu og nauðguðu fegurstu fljóðum Írlands – sem er auðvitað opinber söguskoðun, þeim til varnar.
Hver svo sem tók að sér að vísa Bourdain veginn hér á landi hefði ef til vill átt að lesa sér aðeins til um manninn. Ekki síst vegna þess að hann var þá þegar búinn að gefa út metsölubókina Kitchen Confidential, en hún er einmitt með sjálfsævisögulega ívafi. Lesendur eru fljótir að komast að því að Bourdain hefur lifað sannkölluðu rokkstjörnulífi enda kallaði hann meðlimi The Ramones, uppáhalds hljómsveitar sinnar, vini sína. Sá sem les þessa bók myndi enn fremur átta sig á að það væri álíka gáfulegt að fara með Keith Richards í ræktina, og að fara með Bourdain.
Þátturinn er mikil skemmtun, þar sem röð vandræðalegra augnablika ráða ríkjum – ekki ósvipað og þegar maður horfir á grínmynd þar sem maður kennir í brjósti um söguhetjuna þar sem hún gerir sig að svo miklu fífli að það verkjar.
Um leið er þátturinn ef til vill þörf áminning um að Íslendingar ættu að koma frekar til dyranna eins og þeir eru klæddir gagnvart útlendingum – í stað þess að leggja áherslu á ímynd af sjálfum sér sem er vart til. Þá er átt við hvort heldur hipp og kúl fólk að breikdansa eða að hvert mannsbarn elski þorramat.
Þess má geta að eftir að Bourdain heimsótti Ísland, þá svaraði hann spurningunni um hver væri versti matur sem hann hefði smakkað alltaf eins: „Fyrir utan kjúklinganagga frá McDonalds, þá er það kæstur íslenskur hákarl.“ Síðan þá hefur hann reyndar bragðað endaþarm úr vörtusvíni hjá ættflokki í Namibíu. Sá réttur sló víst hákarlinum við.