Vandfundið er vinsælla snarl en poppkorn. Á Íslandi komst í tísku að borða saltað poppkorn eftir að bandarískir dátar komu með það hingað til lands þegar þeir tóku að sér það göfuga hlutverk að vernda fósturjörðina fyrir ágangi nasista í seinni heimstyrjöld. Reyndar komu þeir einnig með margar af vinsælustu vörum dægurmenningar landans, svo sem Kornfleks, ís og sígarettur – sem hafa notið mikillar hylli æ síðan.

 

Poppkorn er í öllu falli eitt elsta snarl sem fyrirfinnst. Elstu ummerki poppneyslu sem fundist hafa hingað til eru frá Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum og eru talin um 5700 ára gömul. Hér á landi, svo sem víða annars staðar, er vinsælast að borða popp með litlu öðru en salti. Ostapopp nýtur einnig vinsælda, enda gæðavara þar á ferð hvort heldur frá Stjörnupoppi eða Maxi.

 

Víðförlir Íslendingar hafa vafalaust tekið eftir því að annars staðar í heiminum tíðkast það að bragðbæta popp með ýmsum hætti. Í Þýskalandi er sykrað poppkorn t.a.m. jafn vinsælt og hið saltaða. Bandaríkjamenn hafa einnig verið duglegir við að finna nýstárlegar leiðir til að gera poppið sérstakt, karamellu-og súkkulaðipopp er þar að finna í hverjum stórmarkaði… en það er frekar ógeðslegt, ekki satt?

 

Hér verður þó bent á frábæra aðferð til að bragðbæta poppkorn, sem gerir það ekki að kalóríusprengju að bandarískri fyrirmynd, heldur kemur aðeins með krydd í tilveruna – sem allir hljóta að fagna.

 

 

Í Mexíkó tíðkast það að bragðbæta popp með „hot sauce“ eða tabascosósu. Aðferðin er sáraeinföld. Maísinn er poppaður samkvæmt venju í potti. Þegar poppið hættir að lemja pottlokið er poppinu hellt í stóra skál, svo stóra að hægt er að henda poppinu til og frá í skálinni. Er þá dropum af hot sauce helt út á, og poppinu fleygt til jafnt og þétt, svo dreifing sósunnar verður sem best. Þetta kann að hljóma skryngilega í fyrstu, en viti menn – þarna er komið frábært maul, sem Mahlzeit mælir hiklaust með… og Costanza væntanlega líka.

 

Vídjó