Vídjó

Bólivísku unglingarnir Jorge og Alex fæddust inn í blákaldan veruleika fátæktar þeirra er komnir eru af indíánunum í Andesfjöllunum. Það að verða fullorðinn snýst ekki um að byrja að vinna, eins og hjá flestum unglingum heimsins, heldur að komast úr þrælavinnunni í námunum.

 

Jorge og Alex kynntust þegar þeir unnu saman í námunum, þegar þeir voru aðeins 8 og 12 ára gamlir.

 

Að ganga í herinn er ein leið til að rífa sig upp úr námuvinnunni, sem fer mjög illa með skrokkinn. Námuvinnan eyðileggur lungu og önnur líffæri og það er erfitt að fá skikkanlega læknisaðstoð.

 

„Bólivía er lítill hluti af því sem hét Tawantinsuyu [heiti Andesindíána yfir Inkaveldið]. Frumbyggjaherir okkar reyndu að hrekja Spánverjana burt til að vernda okkur. Indíáninn í Andesfjöllunum hefur hvergi átt föðurland í fimm aldir. Enginn þekkir þjáningar betur en sá sem þjáist. En það sem er mikilvægast nú er að feta okkur nær því á hverjum degi að verða aftur við sjálf,“ segir Jorge.

 

Þetta er frábær heimildarmynd Al Jazeera, eftir Rodrigo Vazquez, um veruleikann í fátækum byggðum Bólivíu.