Jules Renard var einn hinna frægu dagbókarhöfunda Frakklands á ofanverðri nítjándu öld. Dagbækurnar (journal) sem franskir höfundar gáfu út á þessum tíma voru mjög persónulegar og kepptust menn við að láta sem vandræðalegustu hluti flakka um eigið líf.

 

Jules Renard skrifaði með „villimannslegri hreinskilni sem fær lesandann til að skjálfa á beinunum,“ eins og breski rithöfundurinn W. Somerset Maugham sagði, en hann var mikill aðdáandi Renards.

 

Renard ólst upp á litlum bóndabæ í La Niévre í miðhluta Frakklands og var sonur bláfátækra kotbænda. Af einhverjum ástæðum var Renard hataður af móður sinni. Hún tönnlaðist á því í sífellu að hann væri ekki nema slysabarn sem í raun hefði ekki átt að fæðast.

 

Eins og svo mörg önnur börn átti Jules litli það til að pissa undir. Í hvert skipti sem það gerðist fékk hann grimmilegar rassskellingar að launum að morgni. Einhvern tíma komu ættingjar í heimsókn og fengu þeir rúm Jules til afnota. Stráksi var því látinn gista í rúmi móður sinnar. Hann gerði allt sem í hans valdi stóð til að halda í sér, en gat það ekki á endanum og meig í rúmið.

 

Í refsingarskyni var honum ekki leyft að fara fram úr rúminu daginn eftir. Hann heyrði bara að móðir hans var eitthvað að bardúsa í eldhúsinu. Um kvöldmatarleytið birtist móðir hans með súpudisk sem hún færði honum í rúmið. „Opnaðu munninn, drengur,“ sagði hún kuldalega.

 

Bróðir hans og systir reyndu að halda niðri í sér flissinu á meðan móðir þeirra rak kúffulla súpuskeiðina ofan í gin litla drengsins, aftur og aftur þangað til diskurinn tæmdist. Þegar Jules litli kyngdi síðasta dropanum klöppuðu systkini hans tryllingslega. „Hann drakk það! Hann drakk það!“ æptu þau hlæjandi.

 

Móðirin horfði í augu drengsins og sagði honum að súpan hefði verið löguð úr hlandinu sem hann hafði sjálfur skilið eftir í rúminu um nóttina. „Mér datt það í hug,“ var það eina sem pilturinn sagði.

 

Dagbók eftir Jules Renard.