Árið 1971 settist hópur Íslendinga niður og ræddi um Ísland árið 2000. Þetta spjall birtist í blaðinu Samvinnu. Þetta er bráðskemmtileg og fróðleg sýn á framtíðina frá sjónarholi Íslendinga fyrir rúmlega fjörtíu árum síðan.

 

Einn þáttakenda var Steingrímur Hermannsson sem síðar varð forsætisráðherra. Aðrir í hópnum voru Andri Ísaksson, Ágúst H. Bjarnason, Baldur Óskarsson, Bjarni Bragi Jónsson, Björn Stefánsson, Geir Vilhjálmsson, Helgi Sigvaldason, Hildur Hákonardóttir, Jónas Bjarnason, Margrét Guðnadóttir, Sigurður A. Magnússon, Svava Jakobsdóttir, Sveinn Björnsson og Þorbjörn Broddason. Myndin fyrir ofan er af kápu þessa blaðs en efnt var til samkeppni um hönnun hennar. Ólöf Baldursdóttir bar sigur úr býtum. Hér má lesa upphaflegu greinina.

 

spámenn

Spámennirnir samankomnir.

 

Farið var um víðan völl. Einn fundarmanna hélt því fram að árið 2000 myndi Ísland breytast í japanska verstöð og annar náði að spá fyrir internetinu:

 

„Ég held að á svo til öllum heimilum árið 2000 verði einskonar viðbót við símtækið, sem við höfum núna. Þá höfum við lítið ritvélarborð, við höfum sjónvarpsskerm, við getum fengið síðu á sjónvarpsskerminn úr hvaða alfræðibók eða fræðiriti sem okkur sýnist, þannig að við þurfum ekki að hlaupa á bókasöfnin og fletta upp í bókum.“

 

En margar svartsýnisraddir heyrðust einnig varðandi tækniþróun framtíðarinnar.

 

„Það hefur tekizt að flytja á milli dýra nokkuð af því sem þau hafa lært með því að flytja ákveðnar heilasýrur úr einu dýri í annað. Þetta er auðvitað stórhættulegt.“

 

„Nýlega var fundið upp eitthvert sérstakt hormón, sem getur læknað dvergvöxt. Má ekki hugsa sér að árið 2000 eða á fyrstu áratugum næstu aldar verði farið að staðla menn, þannig að karlmenn verði 1,71 metri á hæð, allir noti samskonar föt, sömu skónúmer.“

 

„Verður farið að djúpfrysta menn árið 2000, þannig að þeir geti vaknað upp aftur eftir svosem 500 ár?“

 

Steingrímur og heilasýrur

 

Í blaðinu birtust einnig einskonar stikkorð úr umræðunum og hér eru nokkur:

 

„Tilraunaframleiðsla á hálfmanni og hálfapa“

 

„Þá verða maurarnir búnir að taka völdin í heiminum“

 

„Þá verður bannað að nota harða skó“

 

„Árið 2000 verður hægt að taka drauma uppá segulband“

 

„Það verða komnir stöðumælar á Hveravöllum og maður fær að horfa á hverina þar í kortér fyrir 100 krónur; svo verða komnar rúllutröppur uppá Esju“

 

„Þá verður farið að smækka manninn svo allir rúmist á jörðinni“

 

„Árið 2000 verður búið að leggja karlmenn niður, því þeir verða orðnir jafnóþarfir og karldýr hjá sumum fuglategundum“

 

„Verður farið að djúpfrysta menn árið 2000, þannig að þeir geti vaknað upp aftur eftir svosem 500 ár?“

„Verður farið að djúpfrysta menn árið 2000, þannig að þeir geti vaknað upp aftur eftir svosem 500 ár?“

 

„Árið 2000 samanstendur hver einasta íslenzk fjölskylda af eiginmanni, eiginkonu, einu barni og einum erlendum þjóðfræðingi“

 

„Forsjónin tekur í taumana og refsar mannkyninu með ægilegum hætti fyrir árið 2000, en síðan verður byrjað aftur með kjarnann úr því sem mannkynið hefur lært í þúsundir ára“

 

„Gereyðing er hugsanleg, en hefur ekki verið nefnd hér, sennilega vegna þess að stjórnendurnir hafa gefið sér að hún yrði ekki“

 

„Það er nokkurnveginn öruggt að þeir sem nú sitja í ráðherrastólum á Íslandi hljóti að verða farnir úr þeim árið 2000“

 

„Innflutningur á erlendum aðiljum verður í algleymingi, þannig að við fáum á engan hátt hamlað gegn erlendum áhrifum“

 

„Það verður búið að reisa plasthimin yfir Esjuna svo ekki þarf að moka rúllutröppurnar“

 

„Þá þykir jafnmikill sóðaskapur að hafa bíla akandi alstaðar á milli húsa einsog það þykir nú að kasta rusli útá götu“

 

Ísland árið 2000a

 

„Náttúrunni verður stjórnað, ekki endilega veðri, en allavega gróðurfari“

 

„Um aldamótin fær enginn að deyja drottni sínum í ró og næði, heldur verða kínebíótísk slagsmál um hvern deyjandi mann á allskonar stofnunum sem búta okkur í þúsund hluta“

 

„Fái hagfræðingar að ráða munum við deyja drottni okkar töluvert fyrir árið 2000“

 

„Hálendi Íslands verður orðið eitt stórt stöðuvatn þar sem erlendum ferðamönnum verður séð fyrir skemmtibátum og íslenzkir göngugarpar ganga á Arnarfell hið mikla“

 

„Kosmísk vitund verður orðin háþróuð, þá verður búið að koma upp „kosmóráði“ fyrir alheiminn“

 

„Þá verður farið að byggja íverustaði á hafsbotni, að minnsta kosti sumarbústaði. Ef menn byrja að búa þar, verður sérstakt mannkyn þar, og síðan verður stórstyrjöld milli landkrabba og hafsbúa.“

 

Verður stórstyrjöld milli landkrabba og hafsbúa?

 

„Dauðarefsing framtíðarinnar verður kannski í því fólgin að vera sendur útí einhverja Síberíu geimsins. Pólitískir fangar verða sendir útí geiminn og aðrir sem ekki fella sig við ríkjandi þjóðfélagskerfi.“

 

„Verður ekki kynskipting í rénun árið 2000? Martinus heldur því fram að hún sé í rénun og þetta endi með tvíkynjungum. Þá verða bæði karlmenn og kvenmenn óþarfir. Kannski verður það einsog hjá rækjunni, sem byrjar á að vera karlkyns en endar með að vera kvenkyns“

 

„Það er talið að hægt sé að flytja menn með rafeindatækni frá einum stað til annars með því að leysa upp líkamann og setja hann saman aftur, en hinsvegar kvað vera erfiðara að flytja sálina þannig“

 

„Dauðinn verður ekki til árið 2000 …“

 

Ísland árið 2000b