Það væri eflaust hægt að skrifa fjölmargar færslur um eitt vinsælasta danslag allra tíma, „Blue Monday,“ með ensku hljómsveitinni New Order. Talið er að 12″ smáskífa lagsins á vínyl sé sú vinsælasta sinnar tegundar í tónlistarsögunni… sem var reyndar bagalegt fyrir hljómsveitina þegar lagið kom fyrst út árið 1983. Margir kannast eflaust við söguna um hinn gífurlega kostnað við framleiðslu á plötuumslaginu, sem var hannað af Peter Saville – samstarfsmanni New Order/Joy Division til margra ára. Fór svo að Factory Records, plötuútgefandi New Order, tapaði 5 pensum á hverri einustu selda eintaki og hljómsveitin sjálf græddi ekki neitt – svo íburðarmikið og glæsilegt var umslagið.

 

Þessi saga hefur verið lífseig enda ekki alveg ósönn með öllu. „Blue Monday“ átti eftir að verða endurútgefin á smáskífu árið 1988 og náði þá aftur miklum vinsældum um allan heim – í þetta skiptið gefin út í hefðbundnu (ódýru) umslagi. Hljómsveitin sá þó lítið af hagnaði af plötusölu þrátt fyrir fagurfræðilega frábærar breiðskífur sem höfðu komið út á árunum áður. En árið 1988 þegar Blue Monday var að ná vinsældum á nýjan leik barst hljómsveitinni tilboð úr óvæntri átt.

 

Bandaríski gosdrykkjaframleiðandinn Sunkist fannst mikið til lagsins koma og bauð New Order 200 þúsund dollara fyrir að taka lagið upp á nýjan leik með því að breyta textanum örlítið.

 

How does it feel
To treat me like you do
When you’ve laid laid your hands upon me
And told me who you are 

Those who came before me
Lived through their vocations

 

Átti að verða:

 

How does it feel
when a new day has begun?
When you’re drinking in the sunshine
Sunkist is the one

When you need a taste for living
Sunkist is the one

 

Þeir Bernard Sumner, söngvari og gítarleikari, og Peter Hook, bassaleikari, hugsuðu sér gott til glóðarinnar. Þeir fóru í upptökuver og gerðu tilraun til að syngja nýja textann en án árangurs, þeir gátu einfaldlega ekki hætt að hlæja! Hook ákvað þá að skrifa á stórt pappaspjald „200.000 $“ og hengja það upp fyrir framan hljóðnemann. Við það gekk söngurinn betur og allt virtist klárt.

 

Eða allt þangað til umboðsmaður hljómsveitarinnar Rob Gretton (sem er mjög afdráttarlaus í skoðunum og tjáskiptum svo vægt sé til orða tekið), komst að tilboðinu. Gretton er með mjög alvarlegt ofnæmi fyrir hvers kyns starfsemi sem flokkast undir „sell-out“ og stöðvaði þessi viðskipti undir eins.

 

En árið 1993 var tekin upp heimildarmyndin NewOrderStory© vegna útgáfu breiðskífunnar Republic. Í myndinni var ákveðið að taka upp grínútgáfu af þessari auglýsingu, til að heyra og sjá hvernig lagið hljómaði. Þá bráðfyndnu útgáfu má sjá hér:

 

Vídjó

 

-via Dangerous Minds