Í dag eru flestir á þeirri skoðun að tóbak sé argasta skaðræðisjurt og neysla hennar sé engum til framdráttar. Svo var þó ekki endilega á liðnum öldum. Jón Ólafsson Indíafari er talinn hafa verið fyrsti Íslendingurinn til að neyta tóbaks snemma á 17. öld en seinna á þeirri öld fór tóbak að berast til Íslands.

 

Tóbak var ýmist reykt, tuggið eða tekið í nefið, rétt eins og nú, og töldu sumir að tóbak byggi yfir ýmsum heilsubætandi kostum. Sem dæmi um það má finna frásögn í Íslenskum þjóðháttum eftir Jónas Jónasson frá Hrafnagili.

 

Sumarið 1722 var læknirinn Jón Pétursson kallaður til vegna prests sem þjáðist af mikilli hitasótt. Áður en læknirinn komst til prestsins ákvað heimilisfólk að reyna að lækna hann sjálft með heimagerðu svitameðali.

 

Sumir trúðu því nefnilega að hægt væri að lækna sjúklinga með því að láta þá svitna duglega.

 

Því var sullað saman brennivíni, pipar og tóbaki og það soðið saman. Tóbak var kreist og safinn var látinn í seyðið. Þótt ótrúlegt megi virðast virkaði ekki að gefa prestinum þetta heimagerða svitameðal og lést hann skömmu eftir að Jón læknir náði til hans.

 

Helstu vísindamenn landsins höfðu einnig trú á tóbakinu. Jón Sveinsson landlæknir skrifaði við upphaf 19. aldar rit um ódýr og einföld læknismeðul. Taldi hann tóbaksseyði og tóbaksreyk mega nota í stólpípur auk þess að hreinsa sár og drepa höfuðlýs og hringorma. Eins taldi hann tóbaksduft og ösku gagnlega til tannhvíttunar.

 

Tóbaksstólpípur voru notaðar t.d. við magakvillum. Einnig var reynt að nota þær til að lífga við fólk sem hafði drukknað. Myndin sýnir svissneskar stólpípur frá 18. öld.

Tóbaksstólpípur voru notaðar t.d. við magakvillum. Einnig var reynt að nota þær til að lífga við fólk sem hafði drukknað. Myndin sýnir svissneskar stólpípur frá 18. öld.

 

Tóbakið var ekki aðeins notað til að lækna mannfólkið. Fjárkláðinn var eitt alvarlegasta vandamál íslensku þjóðarinnar um miðja 19. öld. Sjúkdómurinn lagðist á sauðfé og deildu menn um hvort ætti að reyna að lækna sauðféð eða skera það niður. Þeir sem vildu lækna vildu nota tóbak til þess að leysa vandamálið. Árið 1859 birtist í tímaritinu Hirðir, sem helgað var umfjöllun um fjárkláðann, uppskrift af meðali.

 

Sem lyf til að lækna fjárkláða og afstýra honum er einkum ráðandi til að vilja hafa tóbak, og getur það komið að góðu gagni, að við hafa tóbakssósu, sem svo er kölluð, eða öllu heldur tóbaksseyði, sem alþýða manna þekkir, og skal hella lyfi þessu hjer og hvar á kropp kindarinnar.

 

Þrátt fyrir að tóbakið hafi verið notað til lækninga var það fyrst og fremst brúkað til ánægju og fólust vandamál tengd tóbaki fyrst og fremst í skorti á því. Sem dæmi um það er ágætt að vitna til Íslenskra þjóðhátta aftur:

 

Oft voru menn í vandræðum fyrir tóbaksleysi, og var drýgt með ýmsu, t.d. sortulyngslaufi. Tóbakskarlar tuggðu tjörukaðal og sótsnæri í vandræðum, og fólk tók mulinn fúa, sorfin skipshjól og allan óþverra í nefið. Til er saga um karl og kerlingu; karlinn tók upp í sig, en kerlingin reykti. Þegar karl var búinn að tyggja mesta kraftinn úr tuggunum, tók kerlingin þær og þurrkaði og reykti þær svo í stuttri járnpípu. Svo tóku þau öskuna úr pípunni í nefið; varð varla lengra komizt í nýtninni.

 

Tóbaksplanta.

Tóbaksplanta.