Taugaveiki hljómar eins og dularfullur og ógnvænlegur sjúkdómur. Hún er orsökuð af bakteríunni Salmonella enterica sem vex í innyflum eða blóði hýsils og smitast ef saur úr hýsli mengar mat eða drykkjarvatn. Taugaveikin dregur nafn sitt af því óráði sem fólk getur fengið á síðustu stigum sjúkdómsins.

 

Þessi sjúkdómur hefur fylgt manninum um allar aldir.

 

Til að mynda er það talið mögulegt að plágan mikla í Aþenu 430 f.Kr. hafi verið orsökuð af taugaveiki, en um það er tæpast hægt að fullyrða. Í dag má meðhöndla sjúkdóminn og við honum eru misjafnlega áhrifaríkar bólusetningar en fyrir öld síðan dóu að minnsta kosti einn af hverjum tíu sem sýktust.

 

Þessi sjúkdómur er í vissum skilningi einkenni á frumstæðu samfélagi manna áður en vatnsveitur eru lagðar og kröfur um hreinlæti koma í veg fyrir smit.

 

Skýringarmynd úr danskri bók um sýkingarleiðir taugaveiki frá 1939.

Skýringarmynd úr danskri bók um sýkingarleiðir taugaveiki frá 1939.

 

Oftast á sýkingin sér stað í jarðveginum en til er ein önnur leið til að smitast, það er ef ónæmur smitberi á við mat eða drykk sem er innbyrtur. Frægasti ónæmi smitberinn bar einmitt með sér taugaveiki og var nefnd Taugaveikis-Mæja.

 

En nú víkur sögunni til Reykjavíkur. Í lok árs 1906 varð vart við taugaveiki í Skuggahverfinu. Reykjavík var á þessum tíma tæplega tíu þúsund manna bær í örum vexti. Matthías Einarsson læknir (1879-1948) var starfandi læknir við franska spítalann í Skuggahverfinu sem hýsir Tónmenntaskóla Reykjavíkur í dag.

 

Matthías Einarsson læknir við skurðaðgerð um 1908, að öllum líkindum á Franska spítalanum, ef til vill að hleypa út sulli eða að taka gallblöðru.

Matthías Einarsson læknir við skurðaðgerð um 1908, að öllum líkindum á Franska spítalanum, ef til vill að hleypa út sulli eða að taka gallblöðru.

 

Undir lok nóvembers 1906 voru um tuttugu manns smitaðir af taugaveikinni, allir búsettir miðsvæðis. Matthías sagði frá grunsemdum sínum um að rekja mætti faraldurinn til brunns í Læknablaðinu í grein sem hann skrifaði árið 1947:

 

Hvað Móakotslindina snertir þá voru peningshús og salerni rétt austan við hana ofar í hallanum og veitti ég því athygli, þegar ég athugaði vatnsbólin, eftir að taugaveikin tók að magnast, að sprungur voru miklar í brunnhleðslunni. Vakti ég nú máls á því við héraðslækni, Steingrím Matthíasson og landlækni, Guðmund Björnsson, að þarna gæti verið uppspretta sóttarinnar, en þeir töldu það ólíklegt, þetta væri venjuleg haust-taugaveiki, öllu magnaðri þó en venjulega gerðist.

 

Haust-taugaveikin, útskýrði Matthías, var vísun til þess að „undanfarin ár hafði oft borið meir á taugaveiki að haustinu, um það bil, sem búið var að taka upp úr görðunum (garðáburðurinn var venjulega tekinn úr salernafor).

 

Á tímabilinu nóvember 1906 til febrúar 1907 sýktust 98 manns og má leiða líkum að því að um tugur manna hafi látist af völdum taugaveikinnar. En það jafngildir að um 1150 manns sýktust í dag (2016), og a.m.k. hundrað manns myndu láta lífið.

 

Gervihnattarmynd af Skuggahverfi Reykjavíkur

Gervihnattarmynd af Skuggahverfi Reykjavíkur

Uppdráttur af útbreiðslu taugaveiki í Reykjavík 1906

Uppdráttur af útbreiðslu taugaveiki í Reykjavík 1906-7 eftir Matthías Einarsson. Þau heimili eru hringmerkt sem sóttu vatn í Móakotslind, með þríhyrningi þau sem sóttu í Barónspóst og með ferhyrningi sem sóttu vatnið annað.

 

Móakotslind var lokað 16. desember árið 1906 eftir ábendingar Matthíasar. En áratug seinna skrifaði Matthías í blöðin á ný, nú um taugaveikistilfelli í Skálholti í Biskupstungum.

 

Um síðastliðin aldamót fluttist Skúli læknir búferlum frá Kópsvatni í Hrunamannahreppi að Skálholti. Skömmu áður hafði margt fólk legið í taugaveiki á Kópsvatni, en allir voru þeir heilbrigðir, sem að Skálholti fluttu; þó hefir taugaveikin legið þar við síðan. Árlega hafa einn eða fleiri sýkst þar á bænum (oftast hefir það verið aðkomufólk — verkafólk og ferðafólk — sem sýkst hefir). Veikin hefir yfirleitt lagst þungt á, sumt hefir dáið.

 

Í sveitinni hefir borið meir á taugaveiki þessi árin en í nágrannasveitum, og venjulega verið hægt að rekja sporin að Skálholti. Í sumar hefir taugaveiki verið á þremur bæjum í Tungunum og 12 manns veikst, þar af tveir dáið, ungir bændur báðir. Sá, sem fyrst veiktist, bóndinn á Brú, hafði komið að Skálholti c. 1/2 mánuði áður en hann veiktist. Frá Brú álíta menn að veikin hafi borist á hina tvo bæina.

 

Matthías setti þarna fram tilgátu um ónæman smitbera en frásagnir af Taugaveikis-Mæju höfðu þá mögulega borist til eyrna Íslendinga. Löngu seinna eða árið 1954 skrifaði Ólafur Guðbrandsson frá Stóru-Völlum „um vatnið á Skálholti“ og taugaveikina þar:

 

Sumir fullyrtu að veikin stafaði af vatninu úr hinum fornu brunnum í túninu, og aðrir fullyrtu að gömul kona á heimilinu væri smitberi. Þó þótti það all athyglisvert að enginn varð veikur í hinum bænum og þó var þar alltaf samgangur daglega. Það sannaðist síðar að smitberinn var gamlar fiðursængur sem fluttar höfðu verið þangað frá bæ nokkrum, þar sem taugaveiki hafði áður gengið, en eftir að Skúli læknir hafði loks brennt sængunum hefur engrar taugaveiki orðið vart í Skálholti.

 

Heimildir