„Alþýðlega skemti- og fræðiritið Haukur“ frá Ísafirði birti þennan fróðleiksmola í maí árið 1900. Sá sem skrifar greinina virðist styðja þessi ómannúðlegu og ströngu lög stjórnvalda í Dakóta.

 

Giftingarbann. Í Dakóta í Ameríku er öllum þeim, sem þjást af áfengissýki, berklaveiki, bleikjusótt (ungfrúr-gulu), heilakviksveiki (móðursýki) og ýmsum öðrum sjúkdómum, sem hafa skaðleg áhrif á afkomendurna, bannað að gifta sig.   


Lögin þykja ef til vill harðneskjuleg — en látið þau vera í gildi einn mannsaldur, og þá verða þau áreiðanlega búin að færa mönnum heim sanninn um það, að þau eru rjettlát og þörf.