Í mars árið 1855 birtist í tímaritinu Norðra eftirfarandi bréf frá Sigurði Sigfússyni frá Höfnum. Hann hafði verið á gangi í september 1854 þegar hann mætti furðuskepnu í fjörunni sem svamlaði um í hafinu. Myndin sem fylgir er uppdráttur af skrímslinu.

 

GEIGVÆNLEGT KVIKINDI

Í úthalli dags þess 3. apríls þá gekk jeg ofan að sjó, eptir vana, í refaleitir.

 

Þegar jeg kom að Landeyjarsundi var lítið eitt að fallið og sundið grunnt, tók mjer því hest og reið út í eyjuna; sundið er mjótt um fjöru eyjarmegin og flatar flúrur unz hærri klappir taka við.

 

Hjer skildi jeg hestinn eptir, gekk upp á eyjuna, fann þar ekkert tafarvert, fór því aptur til baka, tók hestinn, teimdi hann eptir flúrunum í sjó út og fór á bak; en allt í einu reis hesturinn — sem var fulltaminn og ófælinn – upp, frísaði og ærðist; jeg hrökk af baki í flæðina, reisti mig fljótt við og vildi á bak aptur; í sama augnabliki leit jeg fælulega ókind þjóta að mjer vestan sundið með fiskiferðarhraða.

 

Dýr þetta nam staðar þá grynnsla kenndi, en jeg hörfaði norður á flúrurnar hálf óttasleginn, þreif til bissunnar, vildi skjóta á ókindina en kveikti ekki, því bissan hafði vöknað eins og jeg.

 

Þegar jeg áttaði mig og óttinn leið frá, dró jeg skotið upp; stóð á þessu nokkuð, því mjer var kalt, veður var hvasst og óblítt, auk þessa hjelt jeg í taum hestsins, sem ljet allt af illa með fælni og starði á ókindina.

Hér berst Godzilla við skrímsli úr hafinu. En það er nú önnur saga.

 

Loksins gat jeg hleypt púðurleifunum úr bissunni, en ekki brá dýrinu við það, hlóð jeg þá bissuna svo mjög, sem framast þorði; meðan á þessu stóð lá dýrið kyrt, utan það ruggaði til beggja hliða og færðist að mjer við það, sem að fjell.

 

Jeg óð út í sjóinn í knje, hleypti skotinu framan á dýrið á fjögra faðma fjarlægð; velti það sjer þá til hálfs við til djúps og hvarf sjónum, en rák í vindgráðinu teiknaði ferð þess á sjó út, en þar húmað var, gat jeg ekki sjeð hvort blóð eða feiti olli brá þessari.

 

Ekki gaf ókindin hljóð af sjer, en bresta heyrði hátt sem líkast mundi ef skotið væri á stórann glerglugga.

 

Að lýsa nákvæmlega mynd þessa geigvænlega kvikindis tjáir mjer ekki svo auðvelt, þar jeg ekki gat virt það fyrir mjer nóglega, heldur hafði hug á að drepa það eða fæla frá mjer, svo ekki teptist náttlángt í eyjunni.

 

— Líkama mikilleik sjódýrs þessa held jeg fullkomlega svara 2. hesta, framan var það breitt og hátt, að sjá mestu flatt fyrir, hæð þess ekki minn enn 1 1/4 álnir fyrir ofan sjómál, þar upp – eða fram af – voru tveir ranar eða horn, að líta sem mikið skammorf, hver þessara rana var klofinn framan, að sjá sem kjaptur væri, ljet dýrið þá ýmist upp eða aptur.

 

Ekki voru kjaptar þessi á enda rananna, heldur laukst raninn upp neðar, var þá hinn stittri skoltur nær hvylft þeirri, er var milli rananna, neðan undir hvylftinni, framan á flatanum og virtist eins og hjartamynd, ljósari á lit enn dýrið sjálft, þar í krín sáust holur margar, en ekki voru þar augu svo sjást mættu, þó skeð gæti svo verið ef djúpt hefði verið inn að þeim.

 

Allt var það rírara aptur, og virtist sem kápa yfir því, þannig að sú seina fellíng lægi ofan á annari eptir því endilaungu, þó á snið svo sem dýrið sjálft var allt rírara aptur, hali var á því á dygurð við skrokkinn sem klætt mannslæri, sem fór mjókkandi unz klumba kom á enda hans, þenna hala lagði það fram á bakið, var þá klumba halans í hvylftinni milli rananna, en bil frá baki undir halann.

 

Þegar jeg óð út í sjóinn til að hleypa skotinu af, tók það á sig hreifíngu að nálgast mig.

 

Opnuðust þá ranarnir og það kastaði halanum til baka skóf sjóinn mjög sterklega á báðar hliðar, svo bára varð af, sjálft belgði það sig upp, hækkaði mikið og jókst fyrirferðar.

 

Hafa því ollað fellíngar þær, sem það var þakið með.

 

Þegar ókindin fjekk skotið, brá nokkru af neðri hluta þess fyrir í skyndi, sýndist kviðurinn rír að neðan og ljósari enn bakið, sljettur og settur fjölda af stuttum iðandi aungvum eða fótum, ekki gat sjest annað enn þeir væru snubbótti og án klóa.

 

Eptir því sem jeg man og gat sjeð, er lýst framanskrifuðu sjódýri.

 

Höfnum 8. dag septemberm. 1854

Sigurður Sigfússon

 

Svipuð skepna?

Arthropleura armata var gríðarlega stór hundraðfætla sem varð útdauð fyrir um rúmlega 300 milljón árum síðan.

 

Það er stærsti hryggleysinginn á landi sem vitað er um í sögunni og náði um 2,5 metra lengd. Dýrið átti enga óvini á landi, en ekki er vitað hvernig það dó út.

 

Líklegt er að smærri arthropleura-tegundir hafi nærst á plöntum á meðan þær stærstu hafi verið alætur og notað sterkbyggða kjálkana til að hakka í sig gróður og til að veiða smávaxin dýr og skordýr.
Líffræðingar telja að þessi risavaxna hundraðfætla hafi nærst á um tonni af gróðri á ári.