Vídjó

Ungir lesendur Lemúrsins kannast kannski helst við breska leikarann Christopher Lee sem Saruman í Hringadróttinssögu. En Lee, sem er fæddur 1922 og því níræður í ár, er einn af afkastamestu leikurum sögunnar og hefur lifað tímana tvenna. (Eins og þegar hann varð vitni að ógeðslegum aðförum í síðustu opinberu aftökunni í Frakklandi.)

 

Lee er einnig lærður söngvari og hefur á efri árum tekið ástfóstri við allóvænta tónlistarstefnu: sinfónískan metal. Árið 2010 gaf hann út sína fyrstu metalplötu, Charlemagne: By the Sword and the Cross, konseptplötu um Karlamagnús Frankakonung sem vann til verðlauna á tónlistarverðlaunum breska tímaritsins Metal Hammer. Fyrr í ár, á níutíu ára afmælisdag stórleikarans, kom svo út framhaldið Charlemagne: The Omens of Death, sem unnin er í samstarfi við Richie Faulkner úr Judas Priest og ku vera enn harðari en fyrsta platan.

 

Nú um daginn gaf Lee út A Heavy Metal Christmas, sem inniheldur metalútgáfur af tveimur jólalögum, Litla trommuleikaranum og Heims um ból. Hlýðið á tóndæmi hér að ofan. Sannarlega jólalegt.

 

Að lokum er hér svo tónlistarmyndband við lagið The Bloody Verdict of Verden af fyrri plötunni um Karlamagnús:

Vídjó