Hobbitinn, hin klassíska saga J.R.R. Tolkien, kom út í Sovétríkjunum árið 1976. Sagan, sem er nokkurs konar inngangur að hinum mikla bálki Hringadróttinssögu, fjallar um ævintýri hobbitans Bilbó Bagga og fyrstu kynni hans af hringnum eina og fyrrum eiganda hans, Gollri.

 

Kvikmynd sem byggð er á sögunni mun verða sýnd bráðlega. Bókin kom fyrst út á íslensku árið 1978 í þýðingu feðganna Úlfs Ragnarssonar og Karls Ágústs Úlfssonar og kom svo líka út í þýðingu Þorsteins Thorarensen, sem einnig þýddi Hringadróttinssögu.

 

Teikningarnar fyrir sovésku útgáfuna gerði M. Belomlinskíj. Hann túlkaði orð Tolkiens á töluvert ólíkan hátt en til dæmis er gert í kvikmyndum Peters Jackson. Bilbó, sem prýðir hina glæsilegu kápu hér að ofan, er kolsvartur og loðinn fyrir neðan beltisstað, eins og górilla. Og Gollrir er skondinn. En flestar persónur eru þó frekar auðþekkjanlegar, eða hvað?