Í dag er þjóðhátíðardagur Máritaníu, íslamsk ríkis í norðvesturhluta Sahara. Í dag er haldið upp á að 51 ár eru liðin frá því að landið hlaut sjálfstæði frá Frökkum, nýlenduherrum sínum. Lemúrinn óskar Máritönum til hamingju með þjóðhátíðardaginn og heldur upp á hann með tónlist frá frægustu söngkonu landsins fyrr og síðar.

 

Márítanar eru um þrjár milljónir talsins. Á síðustu árum hefur fjöldi bænda og hirðingja neyðst til þess að flytja til borganna vegna gríðarlegra þurrka. Eyðimörk þekur þrjá fjórðu hluta landsins og hún hefur stækkað mikið á undanförnum áratugum.

Moska í höfuðborginni Nouakchott.

Moska í höfuðborginni Nouakchott. (Wikimedia Commons)

 

Á miðöldum var landið undir stjórn Almoravid-veldisins sem um tíma réðu yfir Andalúsíu á Spáni. Á nýlenduöld lutu Márítanar stjórn Frakka. Þeir hafa verið sjálfstæðir frá árinu 1960 en mikil vandræði hafa elt þá síðan og einræðisherrar og herforingjar hafa löngum ráðið þar lögum og lofum. Þrælahald var bannað með lögum árið 1981 en margir telja að það þrífist enn.

 

Fyrstu lýðræðislegu forsetakosningarnar í sögu landsins voru haldnar árið 2007 þegar Sidi Ould Cheikh Abdallahi var kjörinn forseti. En herinn gerði uppreisn gegn honum árið eftir og herforinginn Mohamed Ould Abdel Aziz herforingi hefur stjórnað landinu síðan. Hann bauð sig fram til forseta í kosningum árið 2009 og fékk þar umboð frá kjósendum með lýðræðislegum hætti.

 

Dimi Mint Abba.

Dimi Mint Abba.

Eyðimerkurdívan Dimi Mint Abba

Langfrægasti tónlistarmaður Máritaníu var söngkonan Dimi Mint Abba sem lést af slysförum við tónleikahald í Marokkó í júní á þessu ári, 53 ára gömul. Malíska tónlistarstjarnan Ali Farka Touré kallaði hana „bestu söngkonu Afríku“ og Robert Plant, söngvari Led Zeppelin, er annar frægur aðdáandi hennar.

 

 

Vídjó

Vídjó

Vídjó

 

Hér er svo lag með annarri eyðimerkurdívu, þingkonunni Malouma:

Vídjó