Rokkgoðsögnin Iggy Pop er mikill andans maður. Hann hefur til dæmis mikinn áhuga á Rómarsögu. Árið 1995 birti hann bráðskemmtilega grein um áhuga sinn á bókinni The History of the Decline and Fall of the Roman Empire, sem enski sagnfræðingurinn Edward Gibbon skrifaði á árunum 1776-1789. Það er eitt áhrifamesta sagnfræðirit allra tíma og lýsir í löngu máli sögu Rómaveldis, falli þess og uppruna vestrænnar menningar.

 

Edward Gibbon (1737 - 94)

Edward Gibbon (1737-1794)

 

Hér birtum við þetta greinarkorn Iggy Pop í íslenskri þýðingu. Greinin birtist upprunalega í tímaritinu Classics Ireland árið 1995.

 

Sesar lifir

 

eftir Iggy Pop

 

New York City

 

Árið 1982 fylltist ég ógeði á eigin kvikindisskap, lífsleiða og óeðli og á meðan ég túraði um Suðurríkin í Bandaríkjunum og spilaði rokk og ról og sturlaðist á almannafæri, keypti ég mér stytta útgáfu af The Decline and Fall of the Roman Empire (Dero Saunders, Penguin). Mikilfengleiki efnisins höfðaði til mín og eins upphleypt vangamyndin af höfundinum Edward Gibbon á kápunni. Hann leit út eins og alvöru gæi. Þar sem ég starfaði í bransa sem líktist stjórnmálum hafði ég lengi lesið ævisögur um þrjóska karla – Hitler, Churchill, MacArthur, Brando – með löngum lýsingum. Ég hafði líka gaman af bókum um stríð og valdabrölt sem mér fannst ég skilja ágætlega vegna þess sem ég hef kynnst í tónlistarbransanum, sem snýst alls ekki um tónlist, heldur er nokkurs konar trúarbragðaleiga.

 

Ég las mér til yndis þegar klukkan var að verða fjögur um nótt með dóp og viskí við höndina í ódýrum mótelherbergjum, og naut átakanna milli þessara manna, sem höfðu mismunandi skoðanir, persónuleika og gildi; átaka sem óþvegin alþýðan háði á leiksviði mannkynssögunnar, rekin áfram af stórkostlegum erkitýpum. En svo ekki söguna meir. Eða það hélt ég.

 

Þegar ég stóð ellefu árum síðar í niðurníddu en glæsilegu herbergi í rotnandi stórhýsi í New Orleans togaði tónverk, sem ég hafði ekki heyrt áður, mig aftur til Rómar til forna. Gömlu draugarnir blönduðust saman í stórskemmtilegum og viðbjóðslegum leik með Schwartzkopfunum, Schwarzeneggerum og Sheratonum bandarísks ríkidæmis og vöðvadýrkunar.

 

Út úr mér streymdi fróðleikur sem ég hafði ekki hugmynd um að ég byggi yfir eða hefði nokkurn tíma lært, í fyrirvaralausri einræðu sem ég nefndi „Sesar“.

 

Þegar ég hlustaði á hana fór ég að skellihlæja því þetta var svo satt. Bandaríkin eru Róm. Auðvitað, hvað annað? Allt í hinum vestræna heimi, bæði lifnaðarhætti og stofnanir hvers konar, er hægt að rekja aftur til Rómverja og heimsins þeirra. Við erum öll rómversk börn hvort sem okkur líkar betur eða verr.

 

En besta upplifunin kom síðar – konan mín gaf mér fallega útgáfu í þremur bindum með hinum stórkostlega upprunalega óstytta texta af Decline and Fall, og síðan þá hef ég skemmt mér enn betur og grætt enn meira á því að njóta þess sérstaka tungutaks og þeirrar tveggja heima sýnar sem má finna í þessu mikla stórvirki. Hér eru nokkur dæmi um gagnið sem ég hef af lestrinum:

 

1. Ég finn huggun í því að vita að annað fólk lifði og dó og hugsaði og barðist í fyrndinni; mér finnst nútíminn ekki eins yfirþyrmandi.

 

2. Ég læri mikið um samfélagið okkar, því það er hægt að kryfja uppruna alls kerfisins – hervalds, trúar, stjórnmála, nýlendukerfa, landbúnaðar, fjármála – eins og það leit út í upphafi. Ég hef vaxið að víðsýni.

 

3. Málið sem bókin er rituð á er hljómmikið og ákaflega blæbrigðaríkt, alls ólíkt þeirri flatneskju sem menn tala í dag.

 

4. Ég sé hvað ég veit lítið.

 

5. Ég dáist að viljastyrk og lærdómi Gibbons sem gerði honum kleift að vinna þetta verk á um tuttugu árum. Gaurinn hélt sér við efnið.

 

Ég hvet alla sem vilja virkilega skilja lífið á jörðinni til þess að njóta hins fallega fornaldarheims forfeðranna.

 

Þýðing HHG og AFS.