Fyrri heimsstyrjöldin braust út árið 1914, en þá var ljósmyndatæknin ekki langt á leið komin. Litmyndir frá þeim tíma eru fágætar, og fyrir vikið eru staðalímyndir okkar af stríðinu litlausar, eða að minnsta kosti litdaufar, enda sjáum við oftast sviðsetningar á grábrúna skotgrafahernaðinum sem einkenndi síðari hluta stríðsins. Fyrstu mánuðirnir á vesturvígstöðvunum voru hins vegar litskrúðugir — hermenn beggja hliða börðust í herklæðum sem hentuðu betur í skrúðgöngur en vélbyssuhernað.

 

Innrás Þjóðverja í Frakkland hófst í ágústmánuði ársins 1914. Hún gekk hratt fyrir sig og þýski herinn stefndi óðfluga á París. Hin svokallaða Schlieffen-áætlun, sem kvað á um skjótan sigur gegn Frakklandi, virtist ætla að heppnast. Við bakka árinnar Marne sáu frönsku og bresku hershöfðingarnir loksins tækifæri til þess að skakka leikinn og sendu heri sína til atlögu. Hart var barist vikuna 5.-12. september, þar til þýski herinn fann sig knúinn til þess að hörfa. Þetta batt enda á vonir Þjóðverja um skjótan sigur, og kostaði líf 250 þúsund ungra manna.

 

Franskir hermenn kvörtuðu sáran undan búningum sínum, enda gerði litadýrðin þá að auðveldum skotmörkum fyrir hríðskotabyssur andstæðingsins. Að neðan sjáum við litmyndir af hermönnum skömmu fyrir átökin við Marne haustið 1914, en þeir eru klæddir bláum, hvítum og rauðum herklæðum — fánalitum Frakklands. Myndirnar voru teknar af Jules Gervais-Courtellement og birtust fyrst í bókinni Vígvellirnir við Marne (1915).

 

,,Vígvöllurinn við Marne – Ljósmyndir beint í lit“.

 

Franskir hermenn slappa af fyrir orustuna.

Hermenn úr ólíkum herdeildum hlýja sér við eldinn.

Franskir hermenn sitja að snæðingi við eldinn.

Hermenn í stórskotaliði Frakka reiðubúnir með eldri kynslóð af fallbyssum, en þær reyndust algjörlega úreltar í skotgrafahernaðinum sem síðar einkenndi fyrri heimsstyrjöldina.

 

Franskir stórskotaliðar.

Stórskotaliðar hlaða fallbyssu við Marne.

 

 

Stórskotaliðið undirbýr nýju 75 mm fallbyssu Frakka.

 

Menn úr Alpaherdeild Frakka, með húfurnar víðfrægu.

 

Alsírsk herdeild.

Könnunarliðar franska hersins í nýju (hægri) og gömlu (vinstri) búningunum.

Marokkóskir landgönguliðar ásamt frönskum liðsforingja.

Vinstri:  jarðvegurinn eftir að vopnabúr sprakk.  Hægri: Senegalskir hermenn í dökkbláum frönskum herbúningum

Til vinstri standa meðlimir Zouaves — Norður-Afríkudeildar franska hersins.

Frönsk herflugvél frá 1915. Í upphafi stríðsins voru þær eingöngu notaðar til þess að fylgjast með hreyfingum andstæðingsins.  Síðarmeir voru sprengjur kynntar til sögunnar.

 

Zouaves-hermenn í skotgröfum.

Riddaraliðsmenn. Sá til hægri var riddaraliðsmaður í indversku herdeild breska hersins.

 

Franskir hermenn.

Marokkóskt riddaralið.

 

Alsírskir landgönguliðar.

 

Marokkóskir herliðar í nýjum búningum.

Skoskir landgönguliðar klæddir pilsum.  Bretarnir börðust með Frökkum í orustunni við Marne.

Efst: Breskir sjúkrabílar. N.v. breskur mótórhjólaliði. N.h. sími breska hersins.

 

Franskir hermenn og liðsforingjar.

 

Skemmdir Þjóðverja á frönskum þorpum og kirkjum.