Á árunum eftir kreppuna miklu var sjálfsmynd Bandaríkjamanna brostin. Stríðsárin sem við tóku höfðu ekki síður áhrif. Þetta er heimur sem við erum ekki vön að sjá í lit og það er eins og við fáum hina gleymdu fortíð beint í æð.

 

Fjórði áratugurinn byrjaði ekki vel í Bandaríkjunum. Kreppan mikla hófst með algeru verðhruni í kauphöllinni í New York í lok október árið 1929 og fór svo eins og fellibylur um landið og svo um allan heim.

 

Í Bandaríkjunum lamaðist iðnaðarstarfsemi. Milljónir manna misstu vinnuna og höfðu lítið sem ekkert á milli handanna.

 

Kreppan hafði áhrif langt fram á fjórða áratuginn. Á meðan jafnvægi fór að komast á í borgum var enn mikil fátækt í innsveitum og smábæjum.

 

Hér sjáum við magnaðar ljósmyndir í lit frá mótum tveggja tímaskeiða í bandarískri sögu þegar kreppuárin mættu stríðstímanum. Í síðari heimsstyrjöldinni varð skortur á vinnuafli þegar karlmenn voru sendir á vígvöllinn og konur streymdu inn í verksmiðjur og tóku þátt í hergagnaframleiðslunni.

 

Ljósmyndirnar eru geymdar hjá bandaríska þingbókasafninu (Library of Congress). Ljósmyndarar hjá stofnunum United States Farm Security Administration og Office of War Information tóku myndirnar.

 

Á efstu myndinni sjáum við konu við vinnu sína í flugvélaverksmiðjunni Vega Aircraft Corporation í Burbank í Kaliforníu í seinni heimsstyrjöld. Milljónir bandarískra kvenna tóku þátt í stríðsrekstrinum á „heimavígstöðvunum“, meðal annars með því að vinna í hergagnaverksmiðjum. Á meðan heimsstyrjöldinni stóð var allt að einn fjórði allra starfsmanna flugvélaverksmiðja í Bandaríkjunum konur.

 

2

Annað dæmi um konur í karlastörfum. Þessar konur sáu um þrif á eimreiðunum á járnbrautarstöðinni í Clinton í Iowa. Hér eru þær í hádegishléi.

3

Svokallaðar „juke joints“ voru óformlegar krár eða dansstaðir fyrir svarta farandverkamenn sem unnu á plantekrum í suðurríkjum Bandaríkjanna. Myndin er tekin fyrir utan eina slíka krá í Belle Glade í Flórída. Þessir verkamenn hafa líklega unnið við sykurrækt, en um helmingur allra sykurreyrsplantekra í Bandaríkjunum eru í nágrenni Belle Glade.

4

Ungur drengur í Cincinnati í Ohio árið 1942. Hann ólst upp við ströng lög um aðskilnað á milli hvítra og svartra. Þegar þessi mynd var tekin máttu svartir ekki nota sömu klósett og hvítir og þeir urðu að sitja aftar í strætisvögnum. En fáeinum áratugum síðar var þessum lögum loks breytt og svartir fengu sömu réttindi og hvítir – allavega hvað lagabókstaf varðar. Vonandi var þessi drengur enn á lífi árið 2008 þegar Barack Obama, fyrsti svarti forseti Bandaríkjanna, var kosinn.

5

Bandarískar konur af japönskum uppruna í „kyrrsetningarbúðum“ í Kaliforníu. Í seinni heims­styrj­öld voru Bandaríkjamenn af japönsku bergi brotnir álitnir hugs­an­legir land­ráða­menn, og komið fyrir í sér­stökum búðum sem ekki voru annað en fanga­búðir. Alls voru um 110.000 manns teknir til fanga.

6

Jack Whinery og fjölskylda í smábænum Pie Town í Nýju Mexíkó í október árið 1940. Fjölskyldan lifði við sjálfsþurftarbúskap eins og algengt var á árunum eftir kreppuna miklu. Hinar margvíslegu efnahagsaðgerðir Franklins D. Roosevelts Bandaríkjaforseta – sem einu nafni kallast New Deal – gengu meðal annars út á að gera fátæku fólki kleyft að vera sjálfbært um matvæli. Margir fátæklingar fluttu þá úr borgum til sveita, þar sem þeir fengu úthlutað lítilli landspildu og lærðu að stunda búskap. Hinn merki ljósmyndari Russell Lee tók myndina en eftir hann liggur ómetanlegt safn mynda frá þessum erfiðum árum í Nýju-Mexíkó og aðliggjandi ríkjum í Bandaríkjunum.

7

Frú Stagg, íbúi í bænum Pie Town í Nýju-Mexíkó, stillir sér upp við bútasaumsteppi sem hún saumaði. Teppið sýnir öll ríki Bandaríkjanna, sem þá voru aðeins 48 — ríkin urðu ekki fimmtíu talsins fyrr en árið 1959, þegar Hawaii og Alaska bættust við. Um miðbik fjórða áratugarins lögðu sandstormar mikið af ökrum og beitilandi í Oklahoma og víðar á „sléttunum miklu“ í Norður-Ameríku í rúst. Fjöldi fólks þurfti að flýja eyðilegginguna og samfélög flóttafólks spruttu upp víða í Nýju-Mexíkó og Kaliforníu, Pie Town var einn slíkur bær.

8

Stúlkur í ríkinu Vermont í Nýja-Englandi við landamæri Kanada. Þær tróðu upp á „stúlknasýningu“ á árlegri hátíð ríkisins í september 1941. Gríðarlegar breytingar urðu á stöðum eins og Vermont á árunum 1930-1940. Við upphaf áratugarins hrundi atvinnulífið og
tugþúsundir manna misstu vinnuna. En lífið gjörbreyttist á ný þegar Bandaríkin soguðust inn í síðari heimsstyrjöldina og karlmenn voru sendir í herinn og konur í verksmiðjur.

9

Fjölskylda á ríkisreknu plantekrunni Bayou Bourbeau í Louisiana.

10

Lítil stúlka í sveitaskóla í San Augustine í Texas fær sprautu með bóluefni gegn taugaveiki.

Verkamaður í kinroksverksmiðju í bænum Sunray í Texas.

Verkamaður í kinroksverksmiðju í bænum Sunray í Texas.