Andalúsíuhundurinn leit dagsins ljós árið 1929 – sama ár og kreppan mikla hófst – og var samstarfsverkefni tveggja spænskra meistara, málarans Salvadors Dalí og kvikmyndaleikstjórans Luis Buñuel.

 

Hún var fyrst sýnd í fámennum hópi listamanna í París en varð strax mjög vinsæl og var til sýninga í kvikmyndahúsum í heila átta mánuði.

 

Andalúsíuhundurinn olli miklu fjaðrafoki og hafði gífurleg áhrif á heim lista og menningar á hinum viðkvæmu millistríðsárum, sem voru sérstaklega eldfim á Spáni, en aðeins nokkrum árum eftir frumsýningu myndarinnar hófst spænska borgarastríðið.

 

Eins og Thor Vilhjálmsson rithöfundur skrifaði, þá „hneykslaði [Andalúsíuhundurinn] margan góðan borgara í hópi þeirra sem skipa sjálfa sig til að varðveita siðferðið í kringum sig.“ Hvers vegna? Sjón er sögu ríkari.

 

 

Hér birtum við línur úr grein Thors Vilhjálmssonar sem birtist í Þjóðviljanum árið 1954. Thor hélt mikið upp á Buñuel en virðist ekki hafa þolað Dalí.

 

„Höfundurinn Luis Buñuel fæddist í hinu snauða landbúnaðarhéraði Aragon á Spáni árið 1900. Hann lagði stund á vísindanám við háskólann í Madrid og var um tíma aðstoðarmaður mikils taugasérfræðings.

 

Síðar komst hann í kynni við skáldið Garcia Lorca sem sveigði hug hans að listum. Hann var sendur til Parísar sem vísindalegur ráðunautur Þjóðabandalagsins og lagði þar lag sitt við súrrealista er þá óðu upp í tízkuheimi Parísar undir forystu André Breton, Man Rey ljósmyndara, Miro, Arp og málarans Salvador Dalí.

 

 

Sá síðastnefndi taldi hann á að starfa með sér að því að gera kvikmynd sem var hin fyrsta mynd Buñuels  og nefndist: Un Chien Andalou (Hundur frá Andalúsíu).

 

Samstarf þeirra var mjög náið og myndin var súrrealistísk og hneykslaði margan góðan borgara í hópi þeirra sem skipa sjálfa sig til að varðveita siðferðið í kringum sig.

 

En þeir voru ólíkir: menn: Dalí vildi hneyksla til að auglýsa sjálfan sig og vekja umtal, hann er yfirborðslegur flautaþyrill sem til skamms tíma hreif mikið snobbkellingar í New York sem vildu kaupa sér menningu og list en vissu ekki hvert þær áttu að snúa sér og fóru eins að því og að kaupa tannsápu: snéru sér til þess er auglýsti glannalegast.

 

Buñuel er byltingarmaður sem vildi fyrst og fremst leysa hugmyndaflug fólks úr læðingi staðnaðra þjóðfélagskredda og vanahugsunar.

 

Ekki gátu þeir lengi átt skap saman og skildu með þeim leiðir tveim dögum eftir að þeir byrjuðu á annarri mynd en Buñuel gerði hana einn.

 

Það var L’age d’or (Gullöldin) 1930. Sú mynd var súrrealistísk og nær sleitulaus bölmóður og tætingur blandinn nöpru háði og merk heimild um afstöðu súrrealistanna til lífsins, þjóðfélagsins og menningarinnar. Súrrealisminn var gjaldþrotastefna vaxin upp í ringulreið.

 

L’age d’or var höfuðverk súrrealismans og síðasta kvikmyndin í þeim anda sem mark verður tekið á.

 

Enn eru til menn í Ameríku sem halda að súrrealisminn sé lifandi stefna. En hann er kyrfilega dauður, hefur að vísu opnað ýmsar nýjar leiðir en er liðinn undir lok sem listastefna og lífsviðhorf.

 

Buñuel gengur lengra en súrrealistarnir: beitir tækni þeirra til að skoða veruleikann og leysa það sem hann kannar upp í frumparta sína en byggir ekki sjálfstæðan gerviheim eins og þeim var gjarnt.“ – Þjóðviljinn 25. maí 1954.