Sænska leik- og söngkonan Zarah Leander (1907 – 1981) var gríðarlega vinsæl í Evrópu á árunum 1936-1943 og söng nokkur af eftirminnilegustu dægurlögum Þýskalands á tímum Þriðja ríkisins.

 

Sara Stina Hedberg, betur þekkt undir nafninu Zarah Leander.

Hið rétta nafn Leander var Sara Stina Hedberg og hún kom frá Karlstad í Svíþjóð. Hæfileikar hennar vöktu snemma athygli þar í landi og brátt bauðst henni að flytjast til Bandaríkjanna til þess að leita frama í Hollywood. Hún var hins vegar tveggja barna móðir og með takmarkað vald á ensku. Fyrir vikið gaf hún Hollywood-drauminn upp á bátinn og ákvað að reyna fyrir sér í Evrópu.

 

Leander hafði búið um árabil í Ríga í Lettlandi og talaði reiprennandi þýsku. Þetta gerði henni kleift að verða sér úti um samning hjá Universum Film AG, eða UFA, stærsta kvikmyndaveri Þýskalands, sem þá var stjórnað af áróðursmálaráðuneyti Jósefs Göbbels. Göbbels virðist reyndar hafa verið lítt hrifinn af Leander, ef til vill vegna (ósannra) sögusagna um að hún væri af gyðingaættum. Eitt sinn hittust þau í samkvæmi og þá spurði Göbbels hana:

Jósef Göbbels, áróðursmálaráðherra Þriðja ríkisins.

 

„Zarah … er það ekki gyðinganafn?“

„Kannski,“ svaraði Leander, „en hvað með Jósef?“

„Hmmm … já, já, gott svar,“ sagði Göbbels við þessu.

 

Á árunum 1936-1943 lék hún í ellefu kvikmyndum fyrir UFA og fór oftast með hlutverk sterkra, sjálfstæðra kvenna. Hún söng auk þess fjöldann allan af vinsælum dægurlögum. Hér að neðan sést söngatriði úr kvikmyndinni Die große Liebe (ísl. Ástin mikla) frá árinu 1942, þegar síðari heimsstyrjöldin var í algleymingi. Leander syngur þar eitt vinsælasta lag sitt, „Davon geht die Welt nicht unter“ (ísl. „Því ferst heimurinn ei“). Lagið varð sérlega vinsælt í Þýskalandi og var sungið af þýskum hermönnum við Stalíngrad. Höfundur lagsins, Bruno Balz, samdi það á meðan hann var fangelsaður af Gestapó fyrir þann glæp að vera samkynhneigður.

 

Vídjó

 

Árið 1943 varð einbýlishús Leander í Berlín fyrir sprengju í loftárásum bandamanna, sem þá stóðu hvað hæst. Skömmu síðar tapaðist orustan um Stalíngrad, og var stríðið þá bersýnilega farið að snúast gegn Þjóðverjum. Í kjölfarið sleit Leander samningi sínum við UFA og snéri aftur heim til Svíþjóðar. Eftir stríðið náði hún þó aldrei ferli sínum aftur á strik, enda var hún varanlega tengd Þýskalandi nasismans í hugum Svía.