Allir þekkja sovésku tíkina Laiku sem fór á sporbraut um Jörðu fyrst Jarðarbúa og sömuleiðis höfum við flest heyrt sögur af geimferðum fleiri kvikinda, frá ávaxtaflugum til simpansa. En hvað með ketti — hafa þeir ekkert látið til sín taka á þessum vettvangi?
Jú, að sjálfsögðu. Reyndar hefur aðeins einn köttur gerst svo frægur að fara út í geim, og sá var franskur.
Franska geimvísindastofnunin (Centre national d’études spatiales, CNES) var stofnuð árið 1961, á valdatíð Charles de Gaulle.
Vísindamenn CNES fóru fljótt að gera tilraunir með að varpa smádýrum upp í himingeimana. Eftir að þrjár rottur — þeir Hector, Castor og Pollux — höfðu fengið að bregða sér út í geim var árið 1963 ákveðið að prófa stærri dýr, og varð þá köttur fyrir valinu.
Til að byrja með voru fjórtán villikettir af götum Parísar settir í sérstakt æfingaprógramm til að finna hæfustu geimfarana. Kettirnir voru þá meðal annars látnir dvelja í háþrýstiklefa til að líkja eftir aðstæðum við geimflug, og einnig rannsakað hvernig þeir þyldu að ferðast á miklum hraða eða í miklum hávaða.
Að lokum stóð einn köttur uppi sem hinn útvaldi: svarthvít læða sem síðar fékk nafnið Félicette. Og þann 18. október 1963 var henni skotið á loft um borð í franskri Véronique-eldflaug frá Hammaguir í alsírsku eyðimörkinni.
Flugið stóð í 13 mínútur. Kisa flaug 157 kílómetra upp í hitahvolf Jarðarinnar, og sveif svo niður, heilu og höldnu aftur niður á jörðina. Þaðan var hún svo flutt aftur til Parísar þar sem vísindamenn CNES rannsökuðu áhrif geimferðarinnar.
CNES gerði svo aðra tilraun til að koma ketti út í geim þann 24. október, en því miður fór eitthvað úrskeiðis og eldflaugin með kisa innanborðs brotlenti skömmu eftir flugtak. Kötturinn sá, sem hafði ekki fengið nafn, fórst í slysinu.
Síðan hefur ekkert ríki reynt að senda kött út í geim — þó að árið 2013 hafi Íran reyndar lýst því yfir að þeir hefðu hug á að senda kött út í geim, en margir sérfræðingar efast um burði Írana til þess. En það yrði auðvitað persneskur köttur.
Skoðum fleiri svipmyndir frá þjálfunarbúðum frönsku geimkattanna:
Og frá geimferð Félicette hinnar fræknu:
Sjá má alla sögu Félicette í þessu stutta myndbandi:
Myndir af nospremieresannees.fr.