Lemúrar eru ekki bara bestu dýr í heimi heldur einnig ótrúlega fjölbreyttir. Þrátt fyrir að eyjan Madagaskar í Indlandshafi séu einu heimkynni lemúra eru til meira en hundrað lemúrategundir. Fyrir rúmlega ári síðan sagði Lemúrinn einmitt frá því að dýrafræðingar á Madagaskar hefðu uppgötvað lemúrategund númer 102. Nú hefur enn annar stóratburðurinn orðið í heimi lemúrafræða og tvær lemúrategundir bæst við.

 

Lemúrar 103 og 104 tilheyra báðir ættkvísl músalemúra og eru því náfrændur minnsta prímata heims, músalemúrs frú Berthe. Nýju músalemúrarnir voru skírðir í höfuðið á landslagi Madagaskar og hlutu nöfnin Anosy-músalemúr (Microcebus tanosi) og Marohita-músalemúr (Microcebus marohita).

 

Það mætti kalla þá tvíburategundir, báðir er þeir næturdýr, um 27 sentimetrar á lengd, vega um 65-85 grömm og eru með grábrúnan feld. Tegundirnar tvær eru í raun svo líkar að það er ómögulegt að þekkja þær í sundur án þess að rannsaka genasamsetningu þeirra.

 

Myndin hér að ofan er af Marohita-músalemúrnum.

 

Það var Rodin Rasoloarison, sérfræðingur í músalemúrum við háskólann í Antananarivo sem uppgötvaði tegundarnir tvær og lýsir uppgötvun sinni í nýjasta tölublaði af fræðiritinu International Journal of Primatology í samstarfi við lemúrafræðinga í Þýskalandi og Bandaríkjunum.

 

Líklegt þykir að báðir, eða að minnsta kosti Marohita-músalemúrinn, séu í útrýmingarhættu en heimkynni hans í Marohita-skóginum á austurhluta Madagaskar fara óðum minnkandi vegna skógarhöggs og annars óskunda versta prímatans, mannsins. Margir frænda þeirra glíma við svipuð vandamál: 91% allra lemúrategunda eru í útrýmingarhættu.

 

Þeir sem vilja leggja sitt af mörkum til þess að bæta framtíðarhorfur lemúra er bent á Lemur Conservation Foundation og Duke Lemur Center. Veftímaritið Lemúrinn sendir lemúrum númer 103 og 104 sínar bestu baráttukveðjur.

 

Dýralífið í þéttum regnskógunum á austurhluta Madagaskar er ótrúlega fjölbreytt. Mynd eftir Frank Vassen á Flickr.