Reg Presley er áhugaverð týpa. Eða var. Hann lést árið 2013. En ævi hans var skemmtileg blanda af hápunktum sem lágpunktum. Sannkallað ævintýri, rússíbanareið.

Presley, sem hét réttu nafni Reginald Maurice Ball,  stofnaði hljómsveitina The Troggs árið 1964, þá 23 ára að aldri. Um var að ræða nokkurs konar bílskúrssveit, metnaðurinn var ekkert stórkostlegur – að minnsta kosti ekki meiri en svo að Presley vann fyrir sér sem múrari meðfram tónlistinni.

Boltinn fór þó að rúlla þegar hljómsveitin endurflutti lag bandarísku hljómveitarinnar The Wild Ones, einn mesta og þekktasta slagara rokksögunnar; „Wild Thing.“

Vídjó

Þegar lagið var komið í 2. sæti breska vinsældalistans, og í 1. sæti Billboard-listans í Bandaríkjunum, ákvað Presley að leggja múrskeiðina loksins á hilluna. Þetta var árið 1966. En þetta var ekki eina rósin í hnappagati The Troggs. Hljómsveitin frumflutti einnig frábær lög. Sannkallaða gimsteina. Og þau lög voru samin af Presley. Hver man til dæmis ekki eftir laginu „I Can’t Control Myself“, „Anyway That You Want Me“ eða þá þessari neglu:

Vídjó

Arfleifð The Troggs, og þá sérstaklega Reg Presley verður seint metin til fulls. Sérfræðingar hafa engu að síður hampað honum sem frumherja í tónlist. Þar á meðal var rokkskríbent rokkskríbentanna, Lester Bangs, sem kallaði Presley „guðfaðir pönksins“ og sagði hann vera „Marcel Proust rokktónlistarinnar“. Ekki amalegt það. Fleiri héldu ekki vatni yfir snilli Presleys. Þar á meðal Bob Dylan, The Ramones, og þessir snillingar frá Manchester:

Vídjó

En þegar leið á 8. áratug síðustu aldar fór að snúa á ógæfuhliðina hjá Presley og The Troggs. Hljómsveitin var enn starfandi en virðist hafa þjáðst af mikilli ritstíflu (eða tónstíflu?). Frumsamið efni var, tja, satt best að segja algert drasl og hljómsveitin var farin að endurtaka upp sín eigin lög með nýjum hræðilega hallærislegum útsetningum. Þegar var komið á 10. áratuginn var Presley skítblankur, og (geð)heilsufarslega einhvers staðar milli heims og helju eftir rokklíferni undanfarinna áratuga. En þá barst óvænt hjálp utan af vinstri kanti.

Richard Curtis er breskur leikstjóri og handritshöfundur sem sérhæfir sig í rómantískum gamanmyndum. Hans magnum opus er væntanlega hin stórgóða Four Weddings and a Funeral (reyndar leikstýrt af Mike Newell) frá árinu  1994. Myndin sló rækilega í gegn og það gerði einnig lagið „Love Is All Around,“ samið af Presley og frumflutt af The Troggs árið 1967. Í þetta sinn var það þó skoska sveitin Wet Wet Wet sem flutti lagið, og var það í efsta sæti breska vinsældalistans í 15 vikur samfleytt.

Reg Presley átti skyndilega fúlgur fjár. Sem kom sér einstaklega vel því hann var kominn með nýtt áhugamál. Presley var orðinn forfallinn áhugamaður, fræðimaður jafnvel, um hina ýmsu yfirnáttúrulegu hluti. Geimverur og geimskip, uppskeruhringamyndun, gullgerðarlist og týnd menningarsamfélög eins og Atlantis.

Presley lagðist í umfangsmikla rannsóknarstarfsemi sem var fjármögnuð með gróðanum sem skoska hljómsveitin hafði sungið í bankann. Rannsóknirnar skiluðu sér að lokum í bók sem kom út árið 2002, sem fór því miður ekki jafn hátt og Wet Wet Wet. Takið eftir „pun-inu“ í titlinum.

wildthings

Eftir að bókin kom út fór heilsu Presleys að hraka. Hann fékk heilablóðfall skömmu eftir útgáfu bókarinnar og náði sér aldrei almennilega eftir það. Hann lést loks úr lungnakrabbameini þann 4. febrúar árið 2013, eins og áður segir.

Hægt er að kaupa bókina á amazon.com, en lægsta verð fyrir upprunalegt eintak er 90 pund, eða rúmar 17 þúsund krónur íslenskar. Gjöf en ekki gjald.