Vídjó

Mörgæsin gengur í opinn dauðann. Hún gengur inn að miðju Suðurskautslandinu, þar sem ekkert æti er fyrir hana. Hún gengur þangað ein.

 

Það svarar spurningu þýska kvikmyndagerðarmannsins Werner Herzog til mörgæsasérfræðingsins í myndbandinu. „Er til geðveiki á meðal mörgæsa? Ég reyni að forðast að skilgreina geðveiki, eða óreiðu og ég á ekki við að mörgæsir gætu haldið að þær væru Napóleon Bónaparte, en gætu þær einfaldlega sturlast og sagt: „Ég hef fengið nóg af þessum stað“?“

 

Við sjáum fyrst hóp mörgæsa sem stefnir í átt að hafinu til hægri. Því næst sjáum við örvinglaða mörgæs. Hún vill hvorki fara til ísrandarinnar þar sem nægt æti er, né aftur til staðarins þar sem mörgæsirnar dvelja. Skyndilega hleypur hún í átt til fjalla. Mörgæsarsérfræðingurinn segir að þrátt fyrir að hann næði í mörgæsina, myndi hún alltaf snúa við og hlaupa í sömu átt, til fjalla, inn að miðju þessarar stóru heimsálfu, þar sem dauðinn bíður hennar.

 

Meðfylgjandi atriði er fengið úr heimildarmyndinni Encounters at the End of the World, en í henni ferðast Werner Herzog um Suðurskautslandið og ræðir við vísindamenn og starfsfólk í rannsóknarstöðvunum sem starfræktar eru í fimbulkuldanum í heimsálfu mörgæsanna lengst í suðri.