Vídjó

Kvikmyndin I Was a Communist for the FBI (ísl. Ég var kommúnisti fyrir Alríkislögregluna) frá árinu 1951 segir sögu Matthews Cvetic, sem á fimmta áratugnum gerðist meðlimur í Kommúnistaflokki Bandaríkjanna með það fyrir stafni að njósna um flokksmeðlimi fyrir bandarísku Alríkislögregluna, FBI.

 

Cvetic sagði í smáatriðum frá reynslu sinni sem njósnari og falsk-kommúnisti í röð af greinum sem birtust í Saturday Evening Post árið 1950. Greinarnar fjölluðu um hræsni kommúnistanna og taugaveiklun þess að lifa tvöföldu lífi innan um þá. Frásögn Cvetic varð í kjölfarið efni í geysivinsæla samnefnda útvarpsleikþætti sem stóðu fram til 1953.

 

Saga hans fangaði snarlega ímyndunarafl bandarísks almennings og var kvikmynduð af Warner bræðrum ári eftir að greinarnar birtust fyrst. Frank Lovejoy fór þar með hlutverk Cvetics en Dorothy Heart lék Eve Merrick, rauða kennslukonu sem spillir æskunni.

 

Kvikmyndin var leikstýrð af Gordon Douglas og tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta heimildarmyndin 1951, þó án þess að hreppa verðlaunin, sem runnu til Kon-Tiki, sem fjallaði um norska landkönnuðinn Thor Heyerdahl.

 

,,Ég þekki hundrað leyndarmál og hvert þeirra er lífs míns virði!“