Vídjó

Dýrabær (e. Animal Farm) er eitt af mörgum frábærum verkum enska rithöfundarins George Orwell. Þessi fræga dæmisaga segir frá dýrum á búgarði sem rísa upp gegn oki mannana, reka þá á brott og taka reksturinn í eigin hendur. Svínin, sem eru gáfuðustu dýrin, enda uppi með öll völdin á bænum og sýna brátt alræðistilburði. Hægt og bítandi fara þau að apa eftir mannlegri hegðun, þar til þau verða að lokum óaðgreinanleg frá upprunalegu kúgurunum.

 

Feitu svínin, klædd eins og mennirnir.

Feitu svínin taka við heiðursorðum, klædd eins fötum og mennirnir.

Sagan er beitt ádeila á alræðisstjórn Stalíns í Sovétríkjunum og svikin loforð sovét-kommúnismans. Orwell skrifaði hana á árunum 1943-1944, hápunkti síðari heimsstyrjaldar, en átti í miklum erfiðleikum með að finna útgefanda að verkinu loknu. Bresk yfirvöld reyndu nefnilega eftir fremsta megni að styggja ekki Sovétríkin, sem voru á þessum tíma mikilvægur bandamaður í stríðinu.

 

Breska nóbelsskáldið T. S. Eliot starfaði þá hjá útgáfunni Faber & Faber og hafnaði Dýrabæ, meðal annars á þeim grundvelli að hún væri trotskíjista-áróður. Annar útgefandi vildi ritskoða bókina og lagði til að ráðamenn yrðu gerðir að einhverri annarri dýrategund en svínum:

 

Ef dæmisagan beindist gegn einræðisherrum og einræðisríkjum almennt þá væri útgáfa í lagi, en mér sýnist sagan fylgja framvindu mála í Sovétríkjunum svo nákvæmlega […] að skotmarkið gæti aðeins verið Rússland.

 

Eitt annað: Það væri ekki jafn móðgandi ef svín væru ekki ráðandi stéttin í dæmisögunni. Ég held að valið á svínum […] muni án efa móðga marga, og þá sérstaklega viðkvæmt fólk á borð við Rússa.

 

Seinna kom í ljós að athugasemdir þessar bárust frá Peter Smollet, starfsmanni í Rússlandsdeild breska upplýsingaráðuneytisins. Hann reyndist síðar vera njósnari fyrir sovésku leyniþjónustuna NKVD.

 

En ekki allir hrifust af Dýrabæ þegar hún kom út að lokum sumarið 1945. Sumum þótti ádeilan hægvinda og þunglamaleg, öðrum fannst ósanngjarnt að vega svo harkalega að Sovétríkjunum eftir gríðarlegar fórnir Rauða hersins í stríðinu. Samskipti milli austurs og vesturs versnuðu hins vegar til muna á næstu árum, og Dýrabær varð brátt að metsölubók.

 

Teiknimyndsagan „Animal Farm“

Teiknimyndasagan „Animal Farm“ frá 1950.

 

Orwell lést úr berklum árið 1950, þegar kalda stríðið var í algleymingi. Skömmu síðar keypti CIA, nýstofnuð leyniþjónusta Bandaríkjanna, kvikmyndaréttinn að Dýrabæ af ekkju hans, og bauð leikstjóranum Louis de Rochemont að gera áróðursteiknimynd eftir bókinni. Rochemont lagðist í verkið og með fjármagni frá CIA réði hann til sín breska fyrirtækið Halas & Batchelor, sem hafði sérhæft sig í gerð áróðursteiknimynda í stríðinu. Úr varð teiknimyndin efst, en hún kom út í byrjun ársins 1954 og hlaut almennt góðar viðtökur.

 

Dýrin hlýða á gamla göltinn.

Dýrin hlýða á gamla göltinn (Karl Marx). Freku svínin troða sér í fremstu röð en þar standa þeir hlið við hlið, þeir Napóleon (Stalín, svartur) og Snowball (Trotskíj, hvítur).

„Fjárfestarnir“ á bak við myndina vildu að sjálfsögðu eitthvað fyrir sinn snúð og kröfðust breytinga sem sýndu „kommúnisma“ dýranna í sem allra versta ljósi. Stjórn svínsins Napóleons (Stalíns) var ekki einungis jafn slæm og mannana, heldur verri. Hugvitssama svínið Snowball (León Trotskíj) þótti fá allt of jákvæða umfjöllun hjá Orwell og Rochemont var beðinn um að gera það skýrt að Snowball væri ofstækisfullur draumóramaður sem hefði ekki síður en Napóleon leitt Dýrabæ í glötun.

 

Stærsta breytingin frá bók Orwells er þó endirinn. Í lok bókarinnar ganga svínin í lið með mönnunum — þetta táknar samstarf Stalíns við vesturveldin í síðari heimsstyrjöld — en slíkt kemur ekki fyrir í teiknimyndinni. Þar eru svínin einfaldlega sýnd breytast í menn, og gefið til kynna að hin dýrin steypi þeim af stóli undir forystu asnans Benjamíns.

 

Lemúrinn efast um að Orwell hefði verið ánægður með svo grímulausa endurskrifun á sögunni.

 

 

Hægt er að sækja rafbókina Animal Farm hérna. Íslensk þýðing fæst í lærdómsritröð Hins íslenska bókmenntafélags.