Á ljósmyndinni hér að ofan sjást fulltrúar á áttunda þingi rússneska kommúnistaflokksins árið 1919. Þetta eru þeir Jósef Stalín, Vladímir Lenín og Mikhail Kalínín. Ekki er þó allt með felldu.

 

Lesendur þekkja væntanlega margir skáldsögu George Orwells, 1984, þar sem Winston Smith starfar við að endurskrifa söguna hjá Sannleiksráðuneytinu undir skelfilegri alræðisstjórn. Hlutverk hans er að breyta dagblaðagreinum í skjalasöfnum og fjarlægja „óæskilega“ aðila af ljósmyndum.

 

Myndin að ofan var innblástur Orwells, og er eitt af mörgum dæmum um þá stórfelldu endurskrifun sögunnar sem átti sér stað samhliða hreinsunum Stalíns í Sovétríkjunum á fjórða áratug síðustu aldar. Fórnarlömb hreinsananna teljast í milljónum.

 

Hér að neðan sjáum við upphaflegu myndina, þar sem allir fulltrúar þingsins sjást. Meira og minna allir á myndinni nema „þríeykið mikla“ fyrir miðju voru myrtir af ógnarstjórn Stalíns, en hann lét taka af lífi flesta þá sem tóku þátt í stofnun kommúnistaflokksins og byltingu bolsévíka í Rússlandi.

 

Fulltrúar 8. þings rússneska kommúnistaflokksins.  Þeir voru (fremsta röð, frá vinstri) I. Smilga, V. Schmidt, S. Zorín, (fyrir miðju) G. Evdokimoff, Jósef Stalín, Vladimir Lenín, Mikhaíl Kalínín, Petr Smorodín, (efsta röð) P. Malkoff, E. Rahja, S. Galieff, P. Zalutskíj, J. Drobnís, M. Tomsk, M. Kharitonoff, A. Joffe, D. Ryazanoff, Badajeff, L. Serebríakoff og M. Lasjevitsj.

 

Þessi mynd var bara ein af mörgum slíkum myndum. Hér sjáum við fleiri stórfelldar sögufalsanir á ljósmyndum frá valdatíð Stalíns.

 

 

Á fyrstu myndinni sjáum við (frá vinstri) Nikolaj Antípoff, Jósef Stalín, Sergej Kíroff og Nikolaí Sjvernik. Hver á fætur öðrum hverfa þeir, þar til Stalín stendur einn eftir.

 

Á myndinni sjást Stalín, Mólótoff utanríkisráðherra og Nikolaj Jetsoff, yfirmaður NKVD leynilögreglunnar. Jetsoff féll í ónáð og var myrtur 1940.  Hann var eftir það fjarlægður af öllum ljósmyndum.

 

Lenín ávarpar hermenn fyrir framan Bolsjoj-leikhúsið í Moskvu, þann 5. maí 1920.  Á efri myndinni sjást León Trotskíj og Leff Kameneff, en þeir hafa verið máðir út á þeirri neðri.  Trotskíj flúði land og var að lokum myrtur af flugumanni Stalíns í Mexíkó.  Kameneff var handtekinn, látinn játa glæpi sína gegn byltingunni og tekinn af lífi 1936.

 

Öðru ári byltingarinnar fagnað 7. nóv. 1919. Trotskíj, Lev Kameneff og Artemí Kalatoff hafa verið fjarlægðir.

 

Mynd frá 1917. Textanum á skiltunum hefur verið breytt.

 

Fundur byltingarsinna 1897. Verkfræðingurinn Alexander Maltjenkó hefur verið látinn hverfa, en hann var tekinn af lífi árið 1930.