Auk þess að vera leikritaskáld, rithöfundur, alkemisti og listmálari var August Strindberg mikill áhugamaður um ljósmyndun. Viðfangsefni mynda hans var oftar en ekki hann sjálfur, eins og meðfylgjandi mynd af honum með gítar frá árinu 1886 er dæmi um.

 

Strindberg trúði að máttur ljósmynda væri svo mikill að festa mætti sálræna eiginleika fólks á filmu – og sendi fyrstu eiginkonu sinni Siri von Essen og börnum þeirra myndir af sér þegar hann var á ferðalagi um Evrópu.

 

Þessi ljósmynd er hluti af seríu sjálfsmynda sem hann gerði undir áhrifum franska ljósmyndarans Félix Nadar. Á myndunum bregður Strindberg sér í ýmis gervi: rithöfundur, veiðimaður, rússneskur níhílisti, séntilmaður, húsbóndi – og gítarleikari. Hugmyndin var að myndirnar ættu að fanga augnablikið á raunsæislegan hátt – þó svo myndirnar komi nútímaaugum nokkuð tilgerðarlegar fyrir sjónir.

 

Von hans var sú að hin sænska Bonnierútgáfa myndi gefa út ljósmyndabók með þessum verkum, en því var hafnað, framleiðslukostnaður var talinn verða of hár.

 

Strindberg sem séntilmaður

 

Á þessum tíma voru verk hans í raunsæisstíl og þrá hans eftir að fanga sannleikann birtist ekki síður í nálgun hans á ljósmyndun en skáldskapnum.

 

Hann hafði ímugust á myndavélalinsum, sem honum fannst afbaka raunveruleikann. Hann smíðaði því eigin vélar úr vindlaboxum sem hann stakk lítil göt á, svo engin þörf væri á myndavélalinsu og vélabrögðum hennar.

 

Strindberg sem rússneskur níhílisti

Fjölskyldufaðirinn Strindberg ásamt dætrum

 

Að láta raunveruleikann afhjúpa sig

Í ritgerð frá 1894 sem nefnist „Tilviljanir í listrænni sköpun“ óskar Strindberg þess að hann gæti líkt eftir því hvernig náttúran skapar. Þegar hér er komið sögu hefur áhugi Strindberg fyrir raunsæishyggju vikið fyrir spírítisma og alkemíu.

 

Ljósmyndirnar sem hann tekur á þessum tíma eru blanda af þessu tvennu, þar sem hann leyfir náttúrunni að taka mynd af sjálfri sér. Hann kom ljósnæmum plötum fyrir á gluggasyllu svo stjörnubjartur himinninn skein á.

 

Celestographs, 1894. Kungliga biblioteket, Stokkhólmi.

 

Myndirnar virðast vissulega vera af dulmögnuðum himingeimnum og sendi Strindberg stjörnufræðingnum Camille Flammarion afrit og skýrslu um byltingakenndar aðferðir og niðurstöður sínar.

 

Því miður eru stjörnumynstrin fögru í reynd ekki nema skemmdir á plötunum – tilkomnar vegna blöndu af óhreinindum, raka og rangri meðferð á plötunum.

 

Celestographs, 1894. Kungliga Biblioteket, Stokkhólmi.