Þetta er óhugnanleg saga af hræðilegum atburði sem gerðist árið 1851 í Vestmannaeyjum. Danskur maður sprengdi sig í loft upp undir svokölluðum Skansaklettum.

 

Í meira en eina og hálfa öld hefur verið rekinn verslunarrekstur af einhverju tagi í Tanganum í Vestmannaeyjum. Um miðbik 19. aldar var danska myllusmiðnum Johan Julius Frederik Birck úthlutuð lóð á Strandveginum þar sem hann setti á fót verslunina Juliushaab árið 1845.

 

Verslunina rak Birck til ársins 1851. Ekki er ætlunin með þessari grein að reka verslunarsögu Tangans frá upphafi til enda heldur að greina frá endalokum danska myllusmiðsins.

 

Johan Julius Frederik Birck kom upphaflega til Íslands til þess að reisa myllu í Reykjavík. Síðar fluttist hann til Vestmannaeyja fyrir tilstuðlan Jens Benediktssonar, átti hann að byggja þar kornmyllu sem reist var ofan á Bakarahúsið í Garðinum sumarið 1842.

 

Sagan segir að myllusmiðurinn danski hafi verið undarlegur í háttum og lítið haft af verslunarrekstrinum að segja. Hélt hann sig að mestu í Lýsishúsi sínu þar sem hann hafði svefnloft. Myndin að ofan sýnir þetta hús síðar. Þegar Birck var rúmlega þrítugur að aldri er sagt að hann hafi verið mikið þunglyndur og að lokum „geðbilaður“.

 

Sumardag einn árið 1851 sáu bæjarbúar myllusmiðinn arkandi í átt að Skansaklettum og undir annarri hendinni bar hann kút með sprengiefni. Segir svo í grein Þorsteins Jósepssonar frá árinu 1943 sem birtist í Frjálsri verslun:

 

Sagan um danska kaupmanninn í Frjálsri verslun árið 1943.

Sagan um danska kaupmanninn í Frjálsri verslun árið 1943.

 

„Þegar Júlíus sálugi var kominn spöl inn með klettinum, vel í hvarf frá bænum, settist hann klofvega á kvartelið, kveikti á eldspítu og bar hana logandi að sætinu. Kvartelið var fullt af púðri og á næsta augnabliki kvað við ógurlegur brestur svo björgin nötruðu og fólkið í kaupstaðnum fölnaði upp af hræðslu. Þá var Julius sálugi Birck á leið til himna og reið helreið á púðurkvarteli. Nokkrar tætlur urðu samt eftir af honum á jörðunni og fundust þær þegar að var gáð í urðinni fyrir neðan klettana.“

 

54328-9202a8c04000641f80000000095d0f52slim-pickens

Mynd af ródeóofurhuganum Slim Pickens, þar sem hann ríður atómsprengju. Fengið úr myndinni Dr. Strangelove. Munurinn er þó á að Pickens er á niðurleið en upp fór Birck.

 

Heimildir:

Frjáls verslun, 7. til 8. tölublað, 1943

Morgunblaðið, 3. ágúst 1985

Heimaslóð