Fjögur stig grimmdarinnar er heiti á fjórum tréristumyndum eftir enska málarann William Hogarth, sem út komu árið 1751. Hogarth hafði fengið nóg af öllum þeim grimmdarverkum sem hann varð vitni að reglulega á götum úti í Lundúnum svo hann gaf myndirnar út til þess að vara landa sína við afleiðingum slíks siðleysis. Myndirnar voru prentaðar á ódýran pappír svo að lágstéttirnar, sem þurftu að mati Hogarths mest á kennslustund í góðu siðferði að halda, gætu tryggt sér eintök.

 

 

Fyrsta myndin, fyrsta stig grimmdarinnar, sýnir ungan dreng, Tom Nero, pynta vesalings hund með því að stinga örvaroddi upp í rassinn á honum. Allt í kring eru drengir sem skemmta sér við svipuð grimmdarverk, hengja ketti upp á skottinu, brenna augun úr fuglum og svo framvegis.

 

 

Í næstu mynd, öðru stigi grimmdarinnar, er Tom Nero fullorðinn og orðinn ekill. Hann lætur svipuna dynja á hestinum sínum á meðan farþegar hans, fjórir lögfræðingar í sínu fínasta pússi, öskra af hræðslu. Skammt frá er bóndi nokkur að lúberja kindurnar sínar og drukkinn flutningavagnsekill keyrir yfir ungan dreng.

 

 

Þriðja myndin ber nafnið Fullkomnun grimmdarinnar. Þar hefur Tom Nero, hafandi gefist upp á ekilsstarfinu og snúið sér að glæpum, drepið barnshafandi unnustu sína á hrottalegan hátt. Hann er handtekinn og leiðir það til fjórðu og síðustu myndarinnar, Laun grimmdarinnar, sem sést hér að ofan. Tom Nero hefur verið hengdur fyrir morðið og er líkami hans nú í höndum skurðlækna sem krukka í hann af lítilli virðingu og gefa hundi innyfli hans að éta.