Það er ekkert nýtt að vinstrisinnaðir og frjálslyndir listamenn vinni fyrir auðmenn sem deila ekki sömu pólitísku hugsjón og þeir sjálfir.

 

Maðurinn sem hýsti byltingarleiðtogann Leon Trotskíj í útlegð hans í Mexíkó vann einnig fyrir bandaríska kapítalista úr hinum moldríku fjölskyldum Ford og Rockefeller á fyrri hluta 20. aldar.

 

Hann var því litinn hornauga frá vinstrinu og hægrinu en jafnframt dáður af fólki úr báðum áttum hins pólitíska rófs.

 

fridaanddiego

Skötuhjúin. Diego og Frida giftu sig 1929, skildu 1939 og giftu sig aftur 1940.

 

Diego Rivera var fæddur í Mexíkó 1886. Hann var eitt sinn þekktari en eiginkona sín Frida Kahlo en nú á tímum hefur Frida skriðið fram úr manni sinum í heimsfrægð. Þau áttu í stormasömu sambandi, sem margir ástmenn- og konur komu að og giftu sig t.a.m. tvisvar. Þau voru afskaplega ólík ásjónar, Diego stórgerður, feitur og rúmum tveimur áratugum eldri en Frida sem var ung, falleg og fíngerð.

 

Þau voru bæði listmálarar en heldur frábrugðin í stíl. Meðan Frida er þekktust fyrir litlar sjálfsmyndir stundaði Diego að mála risavaxnar veggmyndir. Helsti gallinn við slík verk er að þau eru dýr í framleiðslu. Rivera þurfti því eins og margir listmálarar í gegnum tíðina að sækja til auðugra velgjörðarmanna til að greiða fyrir verk sín.

 

Sem dæmi um það fékk Edsel Ford, sonur bílaframleiðandans Henry Ford, Rivera til að mála veggmyndir í Detroit Institute of Art sem urðu tilefni mikillar umræðu þar sem Diego var einarður kommúnisti sem hafði t.a.m. heimsótt Sovétríkin og veitt mexíkósku byltingunni, sem hófst 1910, móralskan stuðning.

 

Trotsky, Diego og franski rithöfundurinn André Breton sem var einn af upphafsmönnum súrrealismans.

Trotsky, Diego og franski rithöfundurinn André Breton sem var einn af upphafsmönnum súrrealismans.

 

Henry Ford var hins vegar táknmynd ameríska draumsins en jafnframt þekktur fyrir gyðingahatur, dáður af Adolf Hitler og er t.a.m. minnst á Ford í Mein Kampf, sjálfsævisögu Hitlers. Annað dæmi um störf Rivera fyrir auðmenn var að hann málaði veggmynd í verðbréfahöll San Fransisco borgar.

 

Diego Rivera var þó engan veginn óumdeildur innan hreyfingu kommúnista. Hann var rekinn úr mexíkóska kommúnistaflokknum 1928 vegna þess að hann var talinn hallur undir sjónarmið Leóns Trotskíj sem hafði orðið undir í valdabaráttu við Jósef Stalín í Sovétríkjunum.

 

Bílaverksmiðja Henry Ford séð með augum Rivera.

Bílaverksmiðja Henry Ford séð með augum Rivera.

 

Diego lét þó ekki þar staðar numið, heldur beitti hann sér fyrir því að yfirvöld í Mexíkó veittu Trotskíj hæli 1937. Trotskíj hjónin bjuggu með Diego og Fridu og segja sögur að León og Frida hafi átt í ástarsambandi. Það og sú staðreynd að Diego og Frida fóru þegar leið á að hallast undir stalínisma leiddi til þess að sambúðin gekk ekki til lengdar.

 

image-258Detroit Industry - north wall detail

Bílaverksmiðjan í nærmynd.

 

Eftir að Hitler og Stalín gerðu griðarsamning 1939 snérist Rivera gegn Stalín og sýna gögn frá bandarísku alríkislögreglunni að hann gerðist uppljóstrari fyrir bandarísk yfirvöld í seinni heimsstyrjöldinni.

 

Þó að Rivera hafi verið kommúnisti sjáum við að hann fylgdi aldrei flokkslínunni. Hann var óhlýðinn kommi. Skemmtilegasta dæmið um óhlýðnina og tvíræðnina í persónuleika Rivera má finna í því þegar hann fékk atvinnutilboð frá heldur ólíklegum aðila á fjórða áratug 20. aldar.

 

Nelson Rockefeller, sem átti seinna eftir að verða varaforseti Bandaríkjanna í forsetatíð Gerald Ford, vantaði listamann til að mála stóra veggmynd í háhýsi sem Rockefeller fjölskyldan var að byggja í New York á kreppuárunum.

 

Frábær sena í kvikmyndinni Cradle Will Rock um Lenín á Manhattan:

Vídjó

 

Hann vildi helst fá Henri Matisse eða Pablo Picasso en þar sem þeir voru ekki á lausu ákvað hann að velja Diego Rivera. Eitt af því sem leiddi til þess að Rivera hlaut starfið var að hann var einn af uppáhaldsmálurum móður hans.

 

Rivera var falið ákveðið þema að vinna eftir. Það var: „Maðurinn á krossgötum horfir með von og háum hugsjónum til þess að velja sér nýja og betri framtíð.“ Nokkuð háfleygt hjá Rockefeller en Rivera haskaði sér að verki.

 

Rockafeller hefði mátt gera sér í hugarlund hvernig Rivera myndi túlka verkefnið þar sem hann lá yfirleitt ekki á pólitískum skoðunum sínum. Þegar verkið var vel á veg komið var ljóst að það mundi líklega ekki falla alveg í kramið hjá kaupandanum. Það fékk nafnið Man at the Crossroads.

 

Ljósmynd af upprunalega verkinu, tekin rétt áður en það var eyðilagt árið 1933.

Ljósmynd af upprunalega verkinu, tekin rétt áður en það var eyðilagt árið 1934.

 

Verkið er mjög fjölbreytt og glæsilegt eins og sjá má á meðfylgjandi mynd en það eru nokkur atriði sem stinga sérstaklega í stúf. Á verkinu má sjá auðugar yfirstéttarkonur reykja og spila á spil grandvaralausar meðan blásnauðugir öreigar ganga fylktu liði undir rauðum fánum. Til að bíta höfuðið af skömminni málaði Rivera Vladimír Lenín, fyrverandi leiðtoga Sovétríkjanna á myndina.

 

Sama saga í kvikmyndinni Frida:

Vídjó

 

Mynd af Lenín boðandi byltingu uppi á vegg í byggingu sem nefnd var í höfuðið á valdamestu ætt Bandaríkjanna, helstu holdgervingum kapítalismans í þessum heimi, var einum of mikið fyrir Nelson Rockefeller. Hann bað Rivera um að fjarlægja Lenín af myndinni. Rivera neitaði en bauðst í staðinn til þess að bæta Abraham Lincoln inn í myndina sem móttilboð. Það gekk ekki eftir.

 

Á endanum fékk Rivera greitt að fullu en veggmyndin var ókláruð og var hún eyðilögð af iðnaðarmönnum snemma árs 1934, listvinum New York borgar til mikillar gremju. Aðstoðarmaður Rivera tók þó ljósmynd af veggmyndinni áður en hún var eyðilögð og Rivera málaði endurgerðir af verkinu nokkrum sinnum síðar.

 

man-at-the-crossroads

Í þessari endurgerð sem má finna í Mexíkóborg hefur Rivera bætt Trotskíj, Karl Marx, Friedrich Engels og Charles Darwin við verkið. Endurgerðin fékk nafnið Maðurinn, stjórnandi alheimsins.