Á árunum í kringum 1950 voru stundaðar nornaveiðar gegn kommúnistum í Bandaríkjunum. Margir leikarar og kvikmyndagerðarmenn voru settir á svartan lista sem meinaði þeim að starfa í Hollywood. Þetta eyðilagði feril margra hæfileikaríkra listamanna. Leikkonan Lee Grant var á meðal þeirra þó hún hefði aldrei komið nálægt kommúnisma.

 

Þegar teikningarnar af Múhameð spámanni birtust í danska dagblaðinu Jyllands-Posten árið 2005 varð umræða um mikilvægi tjáningarfrelsisins áberandi. Sú umræða varð síðan enn háværari eftir árásina á franska skopmyndablaðið Charlie Hebdo í janúar 2015. Fólk virtist flest vera á einu máli um að tjáningarfrelsið væri eitt af grunnstoðum vestræns samfélags.

 

Þessi mikilvægu gildi virðast þó ekki alltaf þótt svo heilög þegar litið er til sögunnar. Í raun var tjáningarfrelsið, og þá líka skoðanafrelsið, vestrænum stjórnvöldum verulegur óþægur ljár í þúfu á meðan kalda stríðinu stóð. Þeim fannst að stemma yrði stigum við uppgangi kommúnismans hvar sem væri í heiminum og með hvaða meðölum sem dygðu. Réttur einstaklingsins til eigin skoðana eða að tjá þær sömu skoðanir var þar af leiðandi lítil vörn í þessu hugmyndastríði heimsveldanna.

 

Þann 24. nóvember 1947 voru ellefu menn, rithöfundar, handritshöfundar og leikstjórar sem unnu í Hollywood, kallaðir fyrir nefnd um „óameríska starfsemi“ á vegum bandaríska þingsins sem meðal annars hafði það hlutverk að rannsaka tengsl listamanna og ýmissa áhrifamanna í Bandaríkjunum við Kommúnistaflokkinn í Bandaríkjunum (nefndin var House Un-American Activities Committee – HUAC).

 

Tíu af ellefu neituðu að svara spurningum um hvort þeir höfðu á einhverjum tímapunkti verið meðlimir í Kommúnistaflokki Bandaríkjanna. Sá eini sem ákvað að svara spurningum nefndarinnar var þýska skáldið Bertold Brecht sem fljótlega yfirgaf landið eftir fundinn.

 

Vídjó

 

Fyrir vikið voru Hollywood-tíumenningarnir, eins og þeir voru kallaðir, dæmdir í fangelsi fyrir að sýna Bandaríkjaþingi vanvirðingu.

 

Daginn eftir að þingfundinum lauk voru mennirnir tíu settir á svartan lista sem meinaði þeim um að vera ráðnir til starfa við kvikmynda-eða sjónvarpsgerð eða að fá verk sín gefin út.

 

Þetta var upphafið á einu umdeildasta tímabili í sögu Hollywood þar sem fjöldi fólks er starfaði í draumaverksmiðjunni svokölluðu lenti á svörtum lista sem meinaði þeim, beint og óbeint, um lífsviðurværi sitt.

 

Hollywood var klofin í afstöðu sinni til þessara manna. Stjörnur eins og John Wayne, Gary Cooper, Ronald Reagan og Barbara Stanwyck gáfu öll vitnisburð fyrir HUAC og lýstu yfir stuðningi sínum við nefndina.

 

Á hinn bóginn myndaði hópur frjálslyndra Hollywood-stjarna samstöðuhóp um fyrsta ákvæðið í stjórnarskrá Bandaríkjanna til stuðnings við tíumenninganna. Meðal þeirra sem skipuðu þennan hóp Hollywood-stjarna voru þau Katharine Hepburn, Humphrey Bogart, kvikmyndaleikstjórinn John Huston og Lauren Bacall.

 

Hér má sjá myndband sem gerð var á þeirra vegum um tíumenninganna. John Berry, leikstjóri myndbandsins, var sjálfur settur á svartan lista eftir útgáfu þess.

 

Vídjó

 

Þegar upp komst um tengsl tíumenninganna við Bandaríska kommúnistaflokkinn, dró Humphrey Bogart, ásamt fleirum, stuðning sinn við þá til baka og skrifaði opið bréf til pressunnar þar sem hann lýsti því yfir að hann væri engin kommúnisti. Margir urðu til að gagnrýna Bogart fyrir heigulshátt sem hann aftur á móti sór af sér.

 

im-no-communist-humphrey-bogart-93292629025-1

Ég er enginn kommi.

 

Næstu ár eftir að tíumenningarnir voru dæmdir var fjöldi fólks sett á svarta listann. Oftast fyrir litlar sakir. Sumir björguðu sér frá listanum með því að vera samvinnuþýðir og ljóstruðu upp um tengsl marga samstarfsmanna sinna við Kommúnistaflokkinn, á meðal þeirra sem það gerðu voru leikstjórinn Elia Kazan og leikarinn Sterling Hayden.

 

Ein þeirra fjölmörgu sem lentu á listanum var ung og upprennandi leikkona að nafni Lee Grant.

 

MBDINPR EC005

 

Lee Grant þótti ein efnilegasta leikkona Hollywood. Árið 1951 hlaut hún verðlaun sem besta leikkonan á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrir leik sinn í kvikmyndinni Detective Story og árið eftir var Grant tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir sömu mynd.

 

En Adam var ekki lengi í paradís eins og leikkonan unga átti eftir að komast að. Í lok árs 1951 var Grant beðin um að halda minningarræðu í jarðarför J. Edward Bromberg, þekkts leikara í Hollwood sem hafði látist af völdum hjartaáfalls.

 

Í ræðu sinni vildi Grant kenna HUAC um ótímabæran dauða Bromberg. Hún sagði að álagið sem fylgdi því að liggja undir grun um að vera kommúnisti hafi verið honum ofviða.

 

Eftir flutning ræðu sinnar var Grant kölluð fyrir HUAC og hún beðin um að bera vitni gegn eiginmanni sínum sem hún neitaði að gera. Tengsl manns hennar við Kommúnistaflokkinn voru aldrei sönnuð.

 

Nokkrum dögum síðar var Grant komin á svarta listann. Leikkonan var þá 24 ára gömul.

 

Næstu 12 árin barðist Grant fyrir því að vera tekin af listanum með aðstoð margra góðra manna. Allt kom þó fyrir ekki.

 

Árið 1962 voru flestir leikarar komnir af listanum enda nýr frjálslyndur forseti að nafni John F. Kennedy kominn til valda. Skilaboðin til lögfræðinga Lee Grant voru aftur á móti þau að á meðan hún kæmi ekki upp um manninn sinn yrði hún áfram á listanum.

 

Lee Grant greinir frá reynslu sinni í viðtali frá 2012:

Vídjó

 

Árið 1964 var Lee Grant loksins tekin af listanum, þá 36 ára gömul og öll hennar bestu ár að baki, en fæstar leikkonur fengu mikla vinnu eftir þrítugt á þeim árum.

 

Grant lét sig þó ekki hugfallast og eftir eftirtektaverða framistöðu í sjónvarpsþáttunum Peyton Place, þar sem hún lék konu með vafasama fortíð, fékk hún aftur tilboð frá Hollywood.

 

Hlutverkin sem hún fékk voru þó fæst bitastæð og ef ekki hefði verið fyrir þá Norman Jewison, leikstjóra myndanna The Russians are Coming! The Russians are Coming! og Moonstruck, og Hal Ashby (Harold and Maude og Being There) þá væri Grant líklega að mestu gleymd í dag.

 

in-the-heat-of-the-night

 

Sá fyrrnefndi réð Grant í hlutverk í syrgjandi ekkju í glæpadrama-myndinni In the Heat of the Night en hún fékk mikið lof fyrir frammistöðu sína í myndinni.

 

Hal Ashby, sem var aðstoðarleikstjóri myndarinnar, hreifst svo af leik hennar að hann fékk hana til að leika í myndum sínum The Landlord og Shampoo. Fyrir seinna hlutverkið hlaut Grant óskarsverðlaunin sem besta leikkonan í aukahlutverki.

 

Hér má sjá þegar Lee Grant tók við óskarsverðlaununum en í þakkarræðu sinni má vel greina biturleika hennar gagnvart Hollywood vegna þeirra ára sem hún var á svarta listanum:

Vídjó