Ljósmyndir af venjulegu fólki frá Rússlandi á árunum 1860-1870 veita okkur innsýn í hversdagslíf almúgafólks í Moskvu og St. Pétursborg á þessum árum, í árdaga ljósmyndatækninnar. Myndirnar sýna götusópara, sótara, fátæklinga og allt þar á milli.

 

Fyrir 150 árum, á sjöunda áratug nítjándu aldar, tóku ljósmyndarar í Moskvu og St. Pétursborg röð ljósmynda í cartes-de-visite-stíl, en það var ódýr ljósmyndatækni í þá daga sem varð gjafavara á meðal almennings. Þessar ótrúlegu myndir eru frábær heimild um almúgann af verkamannastétt, handverksmenn, götusala og fátæklinga. Á þeim er hversdagsleikinn aðalatriðið, fólkið á myndunum sést drekka kaffi, spila og vinna dagleg störf. Þetta eru ljósmyndir frá tímabilinu í rússneskri sögu er Fjodor Dostojevskí (1821-81) fjallaði um í sögum sínum um Raskolnikoff laganema og Karamazovbræðurna.

 

Veiðimaður.

Skoskir ljósmyndarar

Um ljósmyndarana er mismikið vitað. J. Monstein, sem tók myndir í Moskvu, var hugsanlega Þjóðverji, en annað vitum við ekki. Meira er vitað um William Carrick, sem ljósmyndaði í St. Pétursborg. Hann var fæddur í Edinborg í Skotlandi árið 1827, en faðir hans var skoskur timbursali í höfninni í St. Pétursborg og var William alinn upp þar. Hann lærði við Listaháskólann í St. Pétursborg, og uppgötvaði þar ljósmyndatæknina, og var í Edinborg um stutta hríð, þar sem hann kynntist ungum atvinnuljósmyndara, John MacGregor að nafni. Árið 1859 stofnuðu þeir félagarnir ljósmyndastofu í St. Pétursborg og unnu saman í þrettán ár, þangað til MacGregor lést árið 1872. Carrick hélt starfinu áfram til dauðadags árið 1878.

 

Glergerðarmaður.

Erfiður bransi

Ekki er talið að ljósmyndarnir hafi grætt mikið á ljósmyndastofunni sinni og það er helst þrennt sem liggur að baki því. Ljósmyndavarningur í Rússlandi var mun dýrari en í Vestur-Evrópu, dagurinn var styttri á veturna og síðast en ekki síst var ekki nein millistétt í Rússlandi á þessum tíma. Millistéttin var hvarvetna sú þjóðfélagsstétt sem aflaði ljósmyndurum tekna með venjulegum portretttökum en í Rússneska keisaradæminu, sem líktist lénsveldi að uppbyggingu, var hana hvergi að finna. William Carrick er þó talin hafa verið virtur fyrir listræna hæfileika sína í ljósmyndun og hlaut mikið lof fyrir myndröðina af rússnesku verkamönnunum, þrátt fyrir að hún væri aðallega hugsuð sem söluvara.

Kósakki.

 

Ódýrar myndir

„Í upphafi voru ljósmyndir dýrar og ekki á færi nema auðugra að láta taka af sér portrettmynd. Fljótt þróuðu menn þó tækni til að taka margar myndir á eina plötu og náðu þannig verði myndanna umtalsvert niður. Þessar smærri myndir, sem eru að stærð ekki mikið minni en ljósmyndir nútímans, kölluðust cartes-de-visite (heimsóknarkort) myndir og náðu fljótt miklum vinsældum. Fólk gat farið til ljósmyndara og í einni setu látið taka af sér og fjölskyldu sinni margar myndir, yfirleitt um 12 á sömu plötu. Þessar smámyndir gátu menn svo gefið vinum og kunningjum til minningar um sig,“ segir í námsefni Bergsveins Þórssonar kennara í ljósmyndasögu við Borgarholtsskóla.

 

Ein frægasta mynd William Carrick frá St. Pétursborg er af þessum heimilislausa manni.

 

Sjómaður selur hollenska síld.

 

Kona kaupir fugla af fuglafangara í Moskvu.

 

Húsverðir slaka á og drekka te.

Blaðasali.

 

Sjómaður sem selur skó úr tauefni.

 

Skúringamaður. Maður skúrar gólfin fyrir 150 árum í Rússlandi.

 

Sótari í St. Pétursborg.

 

Nunna

 

Ljósmóðir.

 

 

 

Skógarhöggsmaður.

 

Flækingur.

 

Kaupmaður.

 

Öskukarl.

 

Eplasali.

 

 

Körfusali.

 

Hjólbörusali á barnsaldri.

 

Munkur.

 

Húsvörður.