Philip Verheyen kryfur eigin afskorinn fót. Málverk af belgíska skurðlækninum Philip Verheyen (1648 – 1711) eftir óþekktan listamann.

 

Verheyen þessi var í prestsnámi í Leiden um 1675 þegar hann fékk sýkingu í vinstri fótinn og ekki kom annað til greina en að skera hann af. Eftir aðgerðina heimtaði prestsneminn af einhverjum ástæðum að fá að halda afskornum fætinum af sér. Hann sprautaði vaxi og öðrum efnum í fótinn til þess að varðveita hann og geymdi í spírituskrukku. Svo heillaður var Verheyen af fætinum að hann gaf fljótlega guðfræðina upp á bátinn, snéri sér að læknisfræði og átti merkilegan feril sem skurðlæknir og líffærafræðingur.

 

Eitt af framlögum Verheyens til læknisfræðinnar er latneskt heiti á hásin, sininni sem tengir kálfvöðva og hæl: tendo Achillis eftir grísku goðsögninni um Akkilles. Hásinina uppgötvaði Verheyen einmitt þegar hann krufði fótinn sinn afskorna. Krufningin fór fram um 1693 — Verheyen hafði þá varðveitt fótinn í tvo áratugi.